Heldur jólin á olíuborpalli

Steingrímur Ólafsson verður á olíuborpalli um jólin.
Steingrímur Ólafsson verður á olíuborpalli um jólin. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Að halda jól á olíuborpalli úti á sjó er líklega langt frá því að geta talist hefðbundið. Jólahald Steingríms Ólafssonar verður þó með því sniði í ár en hann verður á jólavaktinni á olíuborpallinum Songa Dee á Norðursjó.

Steingrímur fór utan á Þorláksmessu til Óslóar, síðan til Stavanger og loks til Bergen, þaðan sem flogið verður með hann í þyrlu út á pallinn á aðfangadag jóla. Hann verður á vaktinni til 28. desember þegar hann kemur aftur heim og ver áramótunum hér á landi með fjölskyldu sinni. „Ég er að leysa af yfir jólin, mann sem hefði annars þurft að vera á vaktinni bæði yfir jól og áramót.“

Steingrímur hefur unnið á olíuborpöllum fyrirtækisins Songa Offshore síðastliðið eina og hálfa árið og líkar vel. Hann segir vinnutímann þægilegan, unnið sé í tvær vikur alla daga á tólf tíma vöktum en svo fær hann fjögurra vikna frí á milli og þá kemur hann heim til Íslands.

Noregsævintýrið hóf Steingrímur í Stavanger fyrir tæpum þremur árum. Þar dvaldi fjölskyldan með honum fyrsta árið en kona hans og dóttir fluttu svo heim. Eldri dóttir hans og sonur búa enn í Noregi.

Í Stavanger vann hann á höfninni við að taka á móti skipum sem komu frá olíuborpöllunum og senda þau aftur til baka með vörur og annað. „Nú er ég á hinum endanum á því sem ég var að gera þá. Hlutverk mitt á olíuborpallinum er að taka á móti skipunum og sjá um birgðir og flutninga fyrir pallinn,“ segir Steingrímur.

Alltaf bingó á laugardögum

Spurður hvernig lífið gangi fyrir sig á olíuborpalli segir hann það í nokkuð föstum skorðum.

„Menn mæta í sína vinnu eftir morgunmat og síðan er hádegismatur, miðdegiskaffi og kvöldmatur. Svo eru setustofur þar sem menn safnast saman þegar vinnu er lokið og það er alltaf spilað bingó á laugardagskvöldum, þannig að þetta er allt mjög heimilislegt. Þarna er allt til alls, sjónvarp, sími og net. Ég vinn vanalega frá sjö á morgnanna til sjö á kvöldin en undanfarið hef ég verið mikið á næturvöktum.“

Um 115 manns vinna á pallinum að staðaldri en þyrla kemur þrisvar til fimm sinnum í viku til að skipta um hluta af áhöfninni.

„Ég er ekki alltaf á sama pallinum, ég er fastráðinn hjá fyrirtækinu en er ekki kominn með fasta stöðu á palli. Það eru að koma fjórir nýir borpallar hjá þessu fyrirtæki og þá mun ég fá fasta stöðu á einum.“

Steingrímur er einn þriggja Íslendinga sem vinna hjá fyrirtækinu, Songa Offshore, einn vinnur á skrifstofunni í landi og annar er logsuðumaður á olíuborpalli. Norðmenn eru meirihluti starfsmanna en annars segir Steingrímur allra þjóða kvikindi vinna á olíuborpöllunum.

„Þetta er fólk á öllum aldri en að stærstum hluta karlmenn þó að konum fari fjölgandi. Þarna eru allir jafnir og vinna saman. Hjá þessu fyrirtæki eru mjög stífar reglur í sambandi við öryggismál og mikið lagt upp úr því að menn passi hver annan.“

Vinnan á olíuborpallinum stoppar ekki yfir hátíðirnar en reynt er að hafa lágmarks mannsskap „Það verður einhver tilbreyting yfir jólin. Þegar ég fór í land síðast var byrjað að skreyta og svo verður víst óvenjulega mikið lagt í matinn í eldhúsinu. Reyndar finnst manni alltaf vera jól þarna hvað mataræði varðar en mér skilst á kokkunum að þeir ætli að bjóða upp á allskonar framandi jólarétti.“

Olíuverðið áhyggjuefni

Lækkandi olíuverð í heiminum er mikið rætt á kaffistofum olíuborpallsins. „Enn sem komið er eru menn ekki komnir með áhyggjur af sinni stöðu, það eru að koma fjórir nýir borpallar og fyrirtækið sem ég er hjá er með langtímasamninga. En borfyrirtækin eru í misjafnri stöðu og eins og gefur að skilja eru menn áhyggjufullir yfir að olíuverð fari hríðlækkandi. Það er búið að segja upp heilmörgum í olíugeiranum í Noregi, aðallega í þjónustu í landi og síðan eru pallar leigðir til Ameríku eða Kanada og þá breytast aðeins kjör og annað slíkt. Í raun er ekki hægt að segja neitt um það hvernig staðan verður en í augnablikinu lítur þetta ágætlega út hjá okkur.“

Lærir á milli vakta

Steingrímur situr ekki auðum höndum þegar hann er í fjögurra vikna fríi hér heima á milli vakta. Síðastliðið vor hóf hann nám í Stýrimannaskólanum og hefur verið í fullu námi þar í vetur samhliða vinnu. „Þetta fer ágætlega saman. Ég er í svokölluðu dreifnámi sem er hannað fyrir þá sem eru á sjó eða í vinnu. Skólinn er afskaplega sveigjanlegur þegar á þarf að halda.“

Af hverju ákvað hann, á fimmtugsaldri, að skella sér í Stýrimannaskólann?

„Ég var sjómaður í tíu ár svo ég þekki það starf vel. Svo sá ég að ég fengi mikið af grunnfögunum úr Tækniskólanum gamla, sem ég var í, metin og ákvað því bara að skella mér í þetta. Námið nýtist líka hugsanlega í vinnunni sem ég er í núna,“ segir Steingrímur sem stefnir á að útskrifast um þarnæstu jól. Hann kann vel við vinnuna á olíuborpallinum og segir hana að mörgu leyti ekkert ólíka sjómennskunni.

„Nema það eru aðeins meiri frí í þessari vinnu en hjá sjómönnum og jafnari tekjur að því leytinu að maður er ekkert að bíða eftir stóra túrnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert