Hún er veik fyrir hnotubrjótum og bjó til jólaþorp

Allt fólkið sem er á ferli í Þorláksmessugötu í jólaþorpinu hennar Línu Guðnadóttur hefur fengið nöfn raunverulegs fólks úr stórfjölskyldu hennar, þar eru amma hennar og afi, mamma og pabbi og allir hinir. Lína viðurkennir fúslega að hafa oft fengið valkvíða þegar kemur að því að kaupa fylgihlut í jólaþorpið.

Þegar dimmt er úti slekk ég stundum ljósin hér inni og sit á stól og stari á dýrðina. Ljósin sem lýsa inni í húsunum gera þetta svo raunverulegt og hlýlegt,“ segir Lína Guðnadóttir um glæsilega jólaþorpið sitt sem hún raðar samviskusamlega upp einu sinni á ári á heimili sínu, fyrstu helgina í desember. „Við viljum leyfa því að standa sem lengst, enda er það ellefu mánuði á ári ofan í kassa, það þarf að fá að njóta sín loksins þegar það kemur upp. Við tökum fínheitin svo niður í janúar, á þrettándanum.“

Þorláksmessa heitir hún gatan sem Lína hefur skapað svo nostursamlega í jólaþorpinu, en Lína keypti fyrstu húsin í þorpið fyrir níu árum í Bandaríkjunum. „Mig hafði lengi langað til að koma mér upp jólaþorpi og ég er enn að bæta við það, þorpið hefur stækkað með hverju ári. Ég kaupi alltaf eitthvað þegar ég fer til útlanda, fólk eða fylgihluti, og ég fæ iðulega mikinn valkvíða, því ég vil kaupa færri hluti en vandaðri. Þetta er allt handmálað og það er til dæmis alvörugler í gluggum húsanna.“

Fólkið og fylgihlutirnir gera það að verkum að allt virðist iða af lífi í jólaþorpinu, þar er fólk að ýta bíl sem er fastur í skafli, fjölskylda stillir sér upp fyrir jólamyndatöku, kór syngur jólalög, póstmaður hjólar með jólapóstinn og svo mætti lengi telja. Og allar persónurnar í þorpinu hafa fengið nafn. „Þetta er fólkið í stórfjölskyldunni minni,“ segir Lína og hlær. „Afi minn og amma eru þarna, mamma og pabbi og allir hinir,“ segir hún og bætir við að þegar gesti beri að garði veki jólaþorpið ævinlega mikla lukku og lítil börn hafi yfirleitt verið mjög dugleg að láta ekki freistast að taka fallegu hlutina og fólkið úr jólaþorpinu og leika sér með það. „Þetta getur vissulega verið erfitt fyrir þau allra yngstu, en þau virðast átta sig á því að þetta er ekki dót.“

Bíómyndin kveikti neistann

Lína er mikil jólakona og hún er sérstaklega veik fyrir hnotubrjótum, þeim hefur hún safnað undanfarin ár og þeir fá eins og jólaþorpið að njóta sín saman í hópi uppi á hillu yfir hátíðirnar. Hún segist hafa verið hrifin af hnotubrjótum allt frá því hún var lítil stúlka í Ísaksskóla. „Þar fengum við alltaf að horfa á bíómyndina um hnotubrjótinn á jólunum. Ég keypti mína fyrstu tvo hnotubrjóta í tívolíinu í Danmörku fyrir sjö árum og enn bætist í hópinn, en það er frekar nýtilkomið að hægt sé að kaupa þá hér heima, ég keypti einmitt þann langstærsta hér heima,“ segir hún og gengur að honum en hann er svo hávaxinn að hann nær henni langt upp á lærlegg. „Ég er svolítið glysgjörn og mér finnst ekkert leiðinlegt ef það er smá glimmer á þeim eða glitrar á steina. Ég er afar vandlát og ég kaupi bara einn hnotubrjót í einu. Ég get eytt ómældum tíma í að skoða þá og velja. Mér finnst líka gaman að eiga þá í ólíkum útgáfum, ég á til dæmis einn lítinn og feitan, en ég er leita mér að löngum og mjóum. Þann nýjasta keypti ég í Minneapolis núna í október, hann er með svartan loðinn háan hatt. Nokkrir litlir hnotubrjótar hanga svo á jólatrénu.“

Drottningin hannaði búninga

Lína og maðurinn hennar eiga samtals fimm dætur, þrjár saman og tvær sem hann átti fyrir. „Dæturnar þrjár hér heima eru hrifnar af hnotubrjótum rétt eins og ég, og þær hafa fengið hnotubrjót að gjöf undanfarna tvo aðfangadaga og eru því byrjaðar að safna. Við fórum fjölskyldan nýlega saman í jólatívolíið í Danmörku og þar sáum við ballettsýningu um hnotubrjótinn þar sem Margrét drottning hafði hannað búningana. Þetta var stórkostleg sýning og mikil upplifun að sjá allar persónurnar lifna við á sviðinu.“

Lína segist taka hnotubrjótana sína fram strax um miðjan nóvember, enda eru þeir mikið stofustáss þar sem þeir standa stórir og teinréttir í röð í öllum regnbogans litum. „Mér finnst svolítið tómlegt þegar þeir eru farnir ofan í kassa,“ segir Lína sem lætur sig dreyma um ýmislegt fleira jólalegt, hana langar til dæmis í gamaldags lest sem gengur á teinum undir jólatrénu og ætlar að láta þann draum rætast einn góðan veðurdag, þegar hún hefur fundið réttu lestina, það þarf jú að vanda valið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert