Vélinni óvænt lent á Íslandi

Vél frá Turkish Airlines.
Vél frá Turkish Airlines. AFP

Flugvél á leið frá Istanbúl í Tyrklandi til Chicago í Bandaríkjunum lenti með veikan farþega á Íslandi á Þorláksmessu. Ættingjar farþega, sem biðu þeirra á flugvellinum í Chicago, náðu ekki sambandi við þá og urðu óttaslegnir. Þeir fréttu ekkert af þeim í átta klukkustundir.

Í frétt indverska fréttavefsins Mid-day.com er haft eftir farþega að allir hafi þurft að halda kyrru fyrir í flugvélinni í þrjá klukkutíma á flugvellinum á Íslandi. „Við vorum á leiðinni til Chicago en það var ekki fyrr en við vorum loks komin út úr flugvélinni að okkur var sagt að við hefðum lent á Íslandi í stað Chicago,“ er haft eftir Nimesh Mehta sem var að ferðast með sjötugri frænku sinni, Sarojben Shah.

Vélin var frá flugvélinu Turkish Airlines.

Synir Shah biðu þeirra á flugvellinum í Chicago og samkvæmt frétt Mid-day var þeim sagt að fluginu hefði verið frestað og þeim tókst ekki að ná tali af ættingjum sínum sem voru um borð í vélinni.

„Við óttuðumst að vélinni hefði verið rænt,“ segir mágur Mehta sem reyndi að fá skýrari svör frá flugvélinu, en án árangurs. Hann segir að ættingjarnir hafi því beðið í margar klukkustundir eftir að fá að vita um ferðir vélarinnar.

Koldimmt á Íslandi

Í gær, aðfangadag, átta klukkustundum eftir að vélin átti að lenda í Chigaco samkvæmt áætlun, náði Mehta loks að gera fjölskyldu sinni viðvart. „Við fengum símtal um nóttina og okkur var sagt að þau hefðu lent á Íslandi en vissu ekkert hvað væri í gangi,“ segir eiginkona Mehta. „Hann sagði að allt væri koldimmt þarna.“

Mehta og hinir farþegarnir biðu á hóteli í Reykjavík í 12 tíma samkvæmt frétt Mid-day áður en flogið var áfram til Chicago.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert