Fór heila veltu á Holtavörðuheiði

Það er snjór og hálka á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni.
Það er snjór og hálka á Holtavörðuheiði. Mynd úr safni. mbl.is/Björn Jóhann

Tvennt slasaðist þegar ökumaður jepplings missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að hann valt í svokallaðri Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði. Bifreiðin fór heila veltu og endaði á hjólunum.

Lögreglan á Blönduósi segir að fólkið, karl og kona, hafi náð að koma sér sjálft út úr bifreiðinni. Vegfarandi kom að þeim og kallaði á aðstoð. Þau voru flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga. Þau eru ekki sögð hafa slasast alvarlega. 

Mikil hálka er á heiðinni og segir lögreglan að ökumaðurinn hafi fipast í akstri með fyrrgreindum afleiðingum. Atvikið átti sér stað á fimmta tímanum í dag.

Bifreiðin er mikið skemmd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert