Keyrt yfir leiði í Gufunesi

Aðkoman í Gufuneskirkjugarði er ekki góð.
Aðkoman í Gufuneskirkjugarði er ekki góð. Ljósmynd/ Íris Guðmundsdóttir

Djúp hjólför liggja yfir fjölda leiða í Gufuneskirkjugarði eftir að keyrt hafði verið yfir þau, að því er virðist á stórum jeppa. Vitni munu hafa verið að verknaðinum og verður hann kærður til lögreglu á mánudag.

Íris Guðmundsdóttir tók meðfylgjandi mynd í gærkvöldi en segist hún hafa gengið fram á skemmdarverkin þegar hún hugðist vitja leiðis annars staðar í garðinum.

„Okkur var illa brugðið eins og gefur að skilja, þetta er ekki eitthvað sem maður vill sjá og vonandi er einhver skýring á þessu önnur en skemmdarverk,“ segir Íris.

Vitni hafa komið fram

Því miður virðist þó ljóst að um skemmdarverk hafi verið að ræða. Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, segir helgispjöllin hafi verið framin á Þorláksmessu og að hann hafi fengið vitneskju um þau á aðfangadag.

Segir hann að til standi að kæra verknaðinn. Segir hann að yfirmaður í Gufuneskirkjugarði hafi reynt að leggja fram kæru símleiðis en að lögregla hafi tjáð henni að hún þyrfti að mæta niður á stöð. Vegna anna verði því ekki unnt að kæra verknaðinn formlega fyrr en á mánudag.

„Ætlunin er auðvitað að draga þá seku til ábyrgðar,“ segir Þórsteinn. Segir hann starfsmenn kirkjugarðanna hafa reynt að bæta skaðann eins mikið og unnt var fyrir jólin en að frekari vinna við leiðin fari fram eftir helgina.

„Það munu vera vitni að þessu en svo hvetjum við auðvitað þann ökumann sem á sök á þessu að koma fram,“ segir Þórsteinn og jánkar því að skemmdarverkin geti valdið miklu tilfinningatjóni fyrir aðstandendur. 

Tengd frétt:

Keyrt yfir 15 leiði og einn grafarkross

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert