Líf þeirra gekk út á að standa í röð

Elín ásamt foreldrum sínum, Ingvari og Ástríði á ströndinni a …
Elín ásamt foreldrum sínum, Ingvari og Ástríði á ströndinni a Kúbu árið 1967 Mynd úr einkasafni

„Ég vissi að Kúba var undir einhverju sem hét „kommúnismi“ og að maðurinn sem var yfir öllu þessu hét Castró. Ég var líka vör við, að hann væri með langt skegg, sem væri sniðugt að klippa af.“

Þetta segir Elín Ingvarsdóttir Emilson, en hún flutti til Kúbu árið 1964 þegar hún var átta ára gömul. Faðir Elínar, Ingvar Emilson var ráðinn í eitt ár til að vinna sem sérfræðingur í haffræði við UNESCO stofnunin Sameinuðu þjóðanna  á Kúbu. Elín segir það löngu tímabært að Kúba og Bandaríkin endurveki samband sitt.

Sjö mánuðir urðu sex ár

Elín fæddist í Brasilíu en Ingvar kenndi við háskóla í Sao Paulo. Upphaflega átti Elín og móðir hennar að vera í Kúbu í aðeins sjö mánuði.

„Þannig að ég undirbjó mig til að vera bara í 7 mánuði og sá til þess að ég ætti nóg af dúkkulísum til að dunda við á meðan. En við vorum þarna næstu sex árin, eða til ársins 1970,“ segir Elín sem segir að áður en hún kom til Kúbu hafði allt tengt kommúnisma verið álitið hættulegt og neikvætt, bæði í Brasilíu og á Íslandi.

„Allar þessar hugmyndir sem ég hafði áður en ég kom til Kúbu fóru í gegnum margar breytingar meðan á dvöl minni stóð. Mér gafst tækifæri til þess að opna augun fyrir öðrum sjónarmiðum og á ýmsum sögulegum atburðum sem hafa skapað heiminum sem við búum í. Allt það sem ég hef séð síðan hefur kennt mér að þær hugmyndir sem réðu okkar heimsmynd árið 1964, þegar maður annað hvort tilheyrði „frjálsa“ heiminum eða var „kommúnismi“ voru rangar.”

 Árið 1970, eftir fleiri tveggja ára endurnýjun á samningum hjá UNESCO, þá kom tími til að flytja. Faðir Elínar gat valið um tvo staði, París eða Mexíkó, og hann valdi Mexíkó. “Þannig að 14 ára táningurinn sem ég var, hafði ekki um annað að ræða en að koma hingað til Mexíkó, þar sem ég er búsett í dag,” segir Elín sem er árið 1981 giftist Mexíkana og á með honum tvö börn.

„Þegar maður býr í Mexíkó, lærir maður að heimurinn er alls ekki tvær hliðar. Mexíkó, þó að það hafi aldrei rofið sambandið við Bandaríkin hefur samt aldrei talið sig vera hluti af bandaríska heiminum. Mexíkó rauf aldrei sambandið við Kúbu til dæmis,“ segir Elín.

Stórborgararnir og eigendur stórfyrirtækja flúðu

En þegar Elín kom til Kúbu á sjöunda áratugnum voru fimm ár liðin frá sigri byltingarinnar. „Þá var búið að setja allt sviðið upp,“ segir Elín. „Flest fyrirtækin höfðu verið þjóðnýtt: bankar, búðir, verksmiðjur, sjúkrahús, skólar, eiginlega bara allt. Che Guevara var settur sem bankastjóri kúbanska þjóðbankans,” segir Elín. Hún segir að kúbanska mafían hafi verið fyrst til þess að hverfa og svo Batista, einræðisherrann sem byltingin steypti af stóli.

„Rétt á eftir, flúðu stórborgararnir og eigendur stórfyrirtækja. Eftir svona tvö ár byrjaði miðstéttin að átta sig á því, að þetta var ekki það sem þau bjuggust við eftir byltinguna. Fídel var nefnilega stórhetja meðal margra, og þegar hann og byltingarherinn þrammaði göturnar í Havana, þrammaði með þeim miðstéttin, og jafnvel meira en almenningur og fátæka fólkið,” segir Elín.

„En eftir tvö ár, var byrjað að líkja byltingunni við vatnsmelónu, græn að utan og rauð að innan,“ segir Elín.

Útlendingar höfðu ákveðin forréttindi

Árið 1961 settu Bandaríkin viðskiptabann gegn Kúbu. Var það sama ár og kúbanska andbyltingin í Miami í Flórída skipulagði innrás Bahía de Cochinos þar sem kúbanski herinn sigraði.  

„Viðskiptabannið innihélt ekki bara bein viðskipti, heldur líka óbein, þannig að Bandaríkin bönnuðu með því öllum  löndum að stunda viðskipti með Kúbu,“ segir Elín. „Eins og ég minntist á þá fór Mexíkó ekki eftir þessu banni.“

Þegar Elín kom til Kúbu tók hún fljótlega eftir því að útlendingar eins og hún hefðu ákveðin forréttindi.

„Við gátum verslað í sérstökum búðum og keypt þar meira en Kúbverjar. Þeir þurftu að nota sérstök  kort og höfðu ekki rétt á að kaupa hluti sem voru ekki nefndir á kortinu. Ég man eftir að heyra að fólk átti rétt á að fá til dæmis þrjár súpuskeiðar að kaffi, eða hálft stykki af smjöri. Líf þeirra gekk út á að standa í röð til að kaupa hitt eða þetta.“

 „Þetta er söguleg stund“

Aðspurð hvað henni finnist um fregnir af því að Bandaríkin og Kúba vilji endurvekja sambandið segir Elín að það sé kominn tími til þess. "Þegar maður hugsar til þess, að það sé liðin meira en hálfa öld síðan að Bandaríkin slitu  stjórnmálasamband við Kúbu, verð ég að segja að það sé komin tími til þess að endurvekja sambandið.  Það er mikið um það að það bæði Obama og Raul Castro séu mjög raunsæir í þessu. Jafnframt er sagt að þetta sé aðferð fyrir Castro fjölskylduna að halda völdum. Það er greinilega verið að reyna að feta í fótspor Kína og Víetnam. En eitt mikið er víst, finnst mér, og það er það, að þetta er söguleg stund.“

Elín segir að mannfólkið þurfi í dag að hugsa um hluti sem enginn áttaði sig á fyrir um 50 árum síðan. „Tímarnir eru öðruvísi núna. Við þurfum að horfast í augu við allt aðra hluti, hvernig skal koma í veg fyrir náttúruhamfarir, umhverfisvernd, loftlagsbreytingar og fleira.  Áður fyrr voru þjóðfélög aðallega að hugsa um  nútímann, framför, iðnvæðingu og lítið um umhverfið. Á þeim tímum var litið hugsað um menningar- og tungumálafjölbreytni,“ segir Elín. „Kúbverjar geta og verða að taka þátt í að leysa þessi vandamál.“

 Elín telur þó mikilvægt að Kúbverjar þurfi að fara varlega í að opna sig  á markaðinum svo þeir tapi ekki því sem Kúba hefur byggt upp í gegnum árin. Nefnir hún vísindi, miklar framfarir í læknarannsóknum og menntunarmálum. „Kúba hefur oft verið tákn fyrir rómönsku Ameríku og það væri gott ef landið gæti haldið áfram að vera það. Það þarf að vera lýðveldi sem virkar með gott markaðskerfi og blandað hagkerfið sem hugsar líka um almenna heilsu, menntun, þjónustu og umhverfisvernd. Nútíminn þarf á því að halda.“

Elín nýkomin til Kúbu árið 1964.
Elín nýkomin til Kúbu árið 1964. Mynd úr einkasafni
Elín ásamt ballett félögum sínum í Kúbu.
Elín ásamt ballett félögum sínum í Kúbu. Mynd úr einkasafni
Elín heldur góðu sambandi við ættingja sína á Íslandi og …
Elín heldur góðu sambandi við ættingja sína á Íslandi og heimsækir landið reglulega. Mynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert