Metþátttaka í kirkjuhlaupi

Hér hleypur hópurinn framhjá Háteigskirkju.
Hér hleypur hópurinn framhjá Háteigskirkju. Ljósmynd/ Vigdís Hallgrímsdóttir

Metþáttaka var í árlegu kirkjuhlaupi Trimmklúbbs Seltjarnarness í morgun. 200 hlauparar hlupu frá Seltjarnarneskirkju kl. 10 í morgun og hlupu 15 kílómetra framhjá 14 kirkjum. Klúbburinn fagnar þrjátíu ára starfsafmæli sínu á næsta ári en þetta er í fjórða skipti sem kirkjuhlaupið fer fram. 

Vigdís Hallgrímsdóttir, einn af skipuleggjendum hlaupsins, segir það hafa gengið afar vel og að hvorki færð á vegum né veður hafi angrað hlauparana.  

„Þetta er svona stemmningshlaup eða samskokk eins og við köllum það,“ segir Vigdís og tekur alfarið fyrir að keppnisskapið hlaupi með menn í gönur í kirkjuhlaupinu. „Það voru allir glaðir og í jólaskapi.“

Vigdís segir hlaupið ávallt enda á hlýlegu nótunum í safnaðarheimili Seltjarnarneskirkju þar sem hlaupararnir fá kakó og smákökur.

„Seltjarnarneskirkja útvegar okkur húsnæði að hlaupinu loknu og svo er það velviljaður kaupmaður, Friðrik í Melabúðinni, sem gefur súkkulaði og mjólk en hann er mikill hlaupari sjálfur.“

Hópurinn á stund milli stríða við Fríkirkjuna.
Hópurinn á stund milli stríða við Fríkirkjuna. Ljósmynd/ Vigdís Hallgrímsdóttir
Hópurinn gæðir sér á smákökum í lok hlaups.
Hópurinn gæðir sér á smákökum í lok hlaups. Ljósmynd/ VIgdís Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert