Þúsundasti íbúi Vesturbyggðar

Adelia Felizardo Valsdóttir, er þúsundasti íbúi Vesturbyggðar.
Adelia Felizardo Valsdóttir, er þúsundasti íbúi Vesturbyggðar. Helgi Bjarnason

„Við vorum svo heppin að það losnaði íbúð hjá sveitarfélaginu sem við tókum á leigu. Það var búið að prófa eitt og annað áður,“ segir Guðmundur Valur Stefánsson, fiskifræðingur hjá Fjarðalaxi. Hann er að flytja með fjölskyldu sinni til Patreksfjarðar og svo hittist á að tíu ára dóttir hans, Adelia Felizardo Valsdóttir, er þúsundasti íbúi Vesturbyggðar.

Stjórnendur Vesturbyggðar hafa fylgst spenntir með íbúatölunni í mánuðinum enda hefur stefnt í að þessu marki yrði náð. Smásveiflur hafa verið; þegar talan var að nást dó íbúi og tveir fluttu í burtu og loksins þegar Guðmundur Valur og kona hans, Adelia Santos Mondlane, fluttu lögheimili sitt rofnaði hinn ímyndaði múr. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að fjölskyldan verði boðuð á fyrsta fund bæjarstjórnar á næsta ári en vill ekki gefa upp hvaða gjöf þúsundasti íbúinn fái.

Mjög hefur fjölgað í Vesturbyggð á þessu ári því fyrir ári voru íbúarnir innan við 950. Þegar sveitarfélagið var stofnað bjuggu þar 1.390 íbúar og þeir voru enn fleiri áður. Á Patreksfirði einum voru 1.000 íbúar um 1970.

Guðmundur Valur hefur verið á faraldsfæti með fjölskyldu sinni í tæp tvö ár og segir aðstæður þeirra vissulega sérstakar. Fyrst fluttu þau frá Mósambík til Ísafjarðar, úr 40 stiga hita í 10 stiga frost, þegar hann tók við starfi deildarstjóra fiskeldisdeildar Fiskistofu. Deildin var síðar flutt til Reykjavíkur og nú um áramótin verður hún flutt til Selfoss.

Honum bauðst að flytja með henni þangað en ákvað að leita sér að annarri vinnu og segist heppinn að hafa fengið áhugaverða vinnu hjá Fjarðalaxi. „Við skoðuðum aðstæður fyrir börnin og þær virðast góðar á Patreksfirði,“ segir Guðmundur Valur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert