Ummæli ársins 2014

Um helgina birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins samantekt á eftirminnilegum ummælum …
Um helgina birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins samantekt á eftirminnilegum ummælum sem höfð voru eftir nokkrum af viðmælendum blaðsins á árinu sem er að líða.

Blaðamenn Sunnudagsblað Morgunblaðsins spjölluðu við á annað þúsund manns árið 2014. Viðmælendur voru úr fjölbreytilegum áttum, voru á öllum aldri og höfðu ólíkar, forvitnilegar, fræðandi, spennandi og oft skemmtilegar sögur að segja sem og álit að gefa.

Um helgina birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins samantekt á eftirminnilegum ummælum sem höfð voru eftir nokkrum af þessum frábæru viðmælendum og eru þó óteljandi margir ónefndir enn úr þeim góða hópi.

Meðal þeirra viðtala sem vitnað er í er spjall við systkinin Arndísi Hrönn og Högna Egilsbörn, Ólaf Darra Ólafsson leikara, Guðna Kolbeinsson þýðanda, Baltasar Kormák Samper kvikmyndaleikstjóra, Áslaugu Magnúsdóttur, athafnakonu í New York, Aldísi Hilmarsdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Þorstein Bachmann leikara, dönsku leikkonuna Sofie Gråbøl úr Forbrydelsen, Jordan Belfort, manninn sem kvikmyndin The Wolf of Wall Street er byggð á, Anítu Margréti Aradóttur knapa, Annie Mist Þórisdóttur, Evrópumeistara í crossfit, Gyrði Elíasson rithöfund, Björk Guðmundsdóttur söngkonu, Þorstein J. Vilhjálmsson fjölmiðla- og kvikmyndagerðarmann, Erró og marga fleiri.

Sofie Gråbøl dvaldi hér á landi á síðasta ári í tengslum við tökur á breskri nýrri þáttaröð sem nefndist Fortitude og í einkaviðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins sagði hún meðal annars frá baráttu sinni við brjóstakrabbamein og hvernig Ísland varð hluti af því hvernig hún upplifði batann. Sofie Gråbøl lék í danska spennuþáttunum Forbrydelsen í næstum sjö ár en þeir nutu mikilla vinsælda hérlendis. Síðasta þættinum lauk með því að persóna hennar, Sarah Lund, flaug til Íslands og líf hennar var í molum.

„Það sem ég vissi ekki var að mitt eigið líf var einnig á leið inn í myrka og erfiða tíma, því að fljótlega eftir að tökum á þessum síðasta þætti lauk greindist ég með brjóstakrabbamein. Allt árið 2013 var ég afar veik og þetta var mjög þungsótt barátta. Ég náði hins vegar bata og á fyrsta vinnudegi mínum, eftir þetta dimma og erfiða ár, rann það upp fyrir mér að ég var á leiðinni til Íslands. Ísland var því síðasti viðkomustaður fyrir veikindin á óeiginlegan hátt og fyrsti viðkomustaður eftir veikindin í raunveruleikanum. Þetta er eitthvað svo táknrænt. Ég flaug inn í myrkrið, bæði á hvíta tjaldinu og í mínu persónulega lífi, þegar ég kvaddi Söru Lund. Og nú var ég að lenda eftir veikindin; einnig á Íslandi, en í ljósinu,“ er meðal þess sem leikkonan sagði í viðtalinu. 

Þorsteinn Bachmann ræddi leik sinni í einni vinsælustu kvikmynd ársins, Vonarstræti og hvernig faðir hans var honum í huga meðan á tökum myndarinnar stóð: 

„Hann dó áður en tökur hófust á Vonarstræti og var mjög sterkur í minni vitund meðan á gerð myndarinnar stóð - og er enn. Pabbi var mikill höfðingi. Á dánarbeðinum hét ég honum að næsta mynd yrði fyrir hann. Pabbi, gjörðu svo vel!“

Aníta Margrét Aradóttir vakti mikla athygli þegar hún tók fyrst Íslendinga þátt í hættulegustu kappreið í heimi, á villtum hestum í Mongólíu en þar er ekki sjálfgefið að komast í mark. Aníta sagði frá geysispennandi keppni í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins:

„Okkur var gert að sætta okkur við það að við myndum öll detta af baki á einhverjum tímapunkti. Hestarnir sem voru notaðir í keppnina voru allir mjög lítið tamdir svo að þetta var eiginlega gefið. Ég hélt mér hins vegar á baki allan tímann og var nokkuð ánægð með það.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert