Þúsundir á skíðum í Bláfjöllum

Úr öryggismyndavél í Bláfjöllum nú í dag.
Úr öryggismyndavél í Bláfjöllum nú í dag.

Veðrið hefur leikið við þúsundir borgarbúa sem hafa lagt leið sína í Bláfjöll til að skíða í dag. Raðir hafa myndast við miðasöluna en að öðru leyti hefur umferð um svæðið gengið snurðulaust, að sögn Einars Bjarnasonar, rekstrarstjóra skíðasvæðisins í Bláfjöllum.

„Þetta er búinn að vera mjög flottur dagur. Frábært veður og færi, nánast logn. Það er alveg fullt af fólki. Alltaf þegar er fyrsti stóri dagurinn og allir eru að kaupa árskort þá er bara röð í miðasöluna hjá okkur. Að öðru leyti hefur gengið vel. Umferðin hefur gengið snurðulaust, ekkert öngþveiti og ekkert vesen en það er nóg af bílum,“ segir Einar.

Skíðasvæðið opnaði kl. 10 í morgun og verður opið til kl. 17. Þetta er fyrsti almenni frídagurinn þar sem skíðasvæðið er opið og veður er gott og því hafa margir gripið tækifærið til að draga fram skíðin eða prófa þau sem þeir fengu í jólagjöf. Einar hefur ekki tölu á hversu margir gestir hafa komið í Bláfjöll í dag en hann áætlar að þeir séu á bilinu þrjú til fimm þúsund.

Á morgun verður svæðið einnig opið frá 10-17 en á mánudag og þriðjudag verður það opið frá kl. 10 til 21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert