Beðið eftir veðri fyrir SPIDER

Sjö ára vinnu íslenska stjarneðlisfræðingsins Jóns Emils Guðmundssonar og félaga hans við Princeton-háskóla við SPIDER-sjónaukann er nú að ljúka. Sjónaukinn er tilbúinn og er nú aðeins beðið eftir því að veðurskilyrði á Suðurskautslandinu verði hagstæð til að senda hann á loft.

Jón Emil hefur verið á Suðurskautslandinu frá 28. október við að setja saman SPIDER-sjónaukann. Honum er ætlað að rannsaka örbylgjukliðinn, ummerki um Miklahvell. Til stendur að láta sjónaukann svífa í loftbelg upp í lofthjúpinn til þess að hann fái skýrari sýn á kliðinn.

„Í dag er tilraunin tilbúin og sjö ára vinnu er við það að ljúka. Nú tekur við bið eftir hagstæðum veðurskilyrðum. Á meðan þessi orð eru rituð er 0.9 m/s vindur úr suðri og COSI, næsta tilraunin í röðinni, bíður enn eftir betra veðri. Það er algengt að tilraunirnar fari nokkrum sinnum út á skotpallinn áður en að veðrið nær fullkomnun. Þetta tímabil er afar stressandi þar sem að margt getur farið úrskeiðis á meðan tilraunin sveiflast til og frá neðan úr krana skotbílsins,“ skrifar Jón Emil á bloggsíðu sína.

Þar segir Jón Emil einnig frá hvernig jólin hafa verið haldin hátíðleg á McMurdo-stöðinni á Ross-eyju á Suðurskautslandinu hafa verið haldin. Snjó kyngdi niður á aðfangadag og á jóladag settist SPIDER-hópurinn að snæðingi og fékk nautalundir og krabbakjöt í jólamatinn. Lítil mörgæs af tegundinni Adelie leit svo við og tók út árangur hópsins eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Fyrri frétt mbl.is: Myndar fyrsta ljós alheimsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert