Réðist á dyravörð og beit hann

mbl.is/Eggert

Talsverður erill var á lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt og gærkvöldi. Ekki síst vegna ölvunarbrota. Þannig var ölvaður karlmaður til að mynda handtekinn í nótt við veitingahús í miðbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar en hann mun hafa ráðist á dyraverði og bitið einn þeirra. Maðurinn er vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Lögreglan hafði að sama skapi afskipti af ofurölvi erlendum ferðamanni í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann lá ósjálfbjarga á gagnstétt og gat ekki tjáð sig vegna ástands síns. Ekki var vitað hvar maðurinn gisti og var hann því vistaður í fangageymslum lögreglu þar til ástand hans lagast. Ölvaður karlmaður var ennfremur handtekinn í Hafnarfirði en hann hafði nýtt sér þjónustu leigubifreiðar en neitað síðan að greiða fyrir hana. Er hann grunaður um greiðslusvik og hótanir og gistir fangageymslur uns hægt verður að ræða við hann.

Þá var bifreið stöðvuð á Bústaðavegi um klukkan eitt í nótt vegna gruns um ölvunarakstur.  Lögreglumenn gáfu ökumanni stöðvunarmerki þegar bifreiðin var stödd við Flugvallarveg en ökumaðurinn stöðvaði ekki fyrr en komið var að Kringlumýrarbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert