Engin stórviðri um áramótin

Skyggnið verður ágætt á köflum að sögn Þorsteins
Skyggnið verður ágætt á köflum að sögn Þorsteins mbl.is/Árni Sæberg

„Það verður vetrarlegt um kvöldið, él og frekar kalt, en skyggnið ágætt á köflum,“ segir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um veðurhorfur fyrir áramótin.

„Veðrið verður þokkalegt, svolítil rigning eða slydda frameftir degi, sunnan átta til þrettán metrar á sekúndu og síðan fer þetta yfir í él um kvöldið og kólnar,“ segir Þorsteinn, en útlitið er svipað um landið mestallt að hans sögn. „Það ættu allavega ekki að verða nein stórviðri.“

Þorsteinn segir að þótt skyggni verði ekki með besta móti á gamlárskvöld ætti að birta eitthvað til eftir því sem líður á kvöldið.

„Það gæti orðið gott á Norður- og Austurlandi, en gengur á með þessum éljum sunnan- og vestanlands þannig að skyggnið gæti verið betra. Þetta verður hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir að fólk geti átt ánægjuleg áramót með tilheyrandi flugeldum og brennum.“

Hægt er að fylgjast nánar með veðurspánni á veðurvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert