Óveður undir Hafnarfjalli

Samkvæmt Vegagerðinni er óveður undir Hafnarfjalli, þó þar sé greiðfært.
Samkvæmt Vegagerðinni er óveður undir Hafnarfjalli, þó þar sé greiðfært. mbl.is/Rax

Greiðfært er nú orðið í nágrenni höfuðborgarinnar en flughálka  víða í uppsveitum Suðurlands. Greiðfært en óveður er undir Hafnarfjalli. Á norðanverðu Snæfellsnesi er greiðfært en óveður. Hálka og óveður er á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku og Fróðárheiði. Flughálka og óveður er á Laxárdalsheiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá er flughálka á Þröskuldum og nokkuð víða á Vestfjörðum, þó vegir séu að mestu greiðfærir á láglendi. Á nokkrum leiðum á Norðvesturlandi, meðal annars fyrir Vatnsnes og frá Sauðárkróki í Ketilás er flughálka, en á öðrum leiðum er hálka. Þæfingsfærð er á Vatnsskarði, flughálka á Öxnadalsheiði.

Á Norðausturlandi er flughált mjög víða í Eyjafirði, í Aðaldal, í Reykjahverfi í Öxarfirði og á Hófaskarði. Þungfært er á Hólasandi, annars er hálka mjög víða á norðaustanlands og ófært á Möðrudalsöræfum.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Austurlandi en þæfingsfærð á Vopnafjarðarheiði, Hróarstunguvegi og á Vatnsskarði eystra.  Flughálka er á Fjarðarheiði. Hálka er einnig með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert