Fá borgað fyrir að nota vistvænar samgöngur

Á síðasta fundi bæjarráðs Seltjarnarness fyrr í þessum mánuði var samþykkt að fastráðnum starfsmönnum bæjarins yrði gefinn kostur á að gera samgöngusamning við bæjarfélagið. Að auki var samþykkt að þeim stæði til boða aðgangur í Sundlaug Seltjarnarness og bókasafnskort í Bókasafn Seltjarnarness þeim að kostnaðarlausu. „Með framtakinu boðar Seltjarnarnesbær umtalsverðar kjarabætur til handa starfsmönnum og stuðlar um leið að bættri lýðheilsu- og umhverfisvitund auk menningarlegrar upplifunar þeirra. Samkomulagið tekur gildi frá og með 1. janúar 2015 og gildir út árið,“ segir í frétt frá Seltjarnarnes um málið.

Markmið samgöngusamningsins er að hvetja starfsfólk Seltjarnarnesbæjar til að nota vistvænan og hagkvæman ferðamáta. Með því móti vill Seltjarnarnesbær leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi, bæjarbrag og heilsu starfsfólks bæjarins og annarra. Samgöngusamningurinn felur í sér að starfsmenn bæjarins noti vistvænar samgöngur til og frá vinnustað í a.m.k. 80% tilvika. 

Fá 4.500 kr í hverjum mánuði

Starfsmenn, sem undirgangast samgöngusamninginn, fá mánaðarlega greiddar óskattlagðar 4.500 krónur með launum. Upphæðin getur einnig nýst sem mánaðarleg greiðsla upp í árskort hjá Strætó, en Seltjarnarnesbær hefur gert samkomulag við Strætó þess efnis að starfsmenn geta nú keypt tólf mánaða kort á verði níu mánaða korts. 

Fastráðnum starfsmönnum bæjarins gefst kostur á ókeypis aðgangi í Sundlaug Seltjarnarness frá 1. janúar - 31. desember 2015. Virði ársaðgangs er kr. 30.000,-  . 

Fastráðnum starfsmönnum bæjarins gefst kostur á ókeypis bókasafnskorti í Bókasafn Seltjarnarness sem gildir frá 1. janúar - 31. desember 2015. Virði kortsins er kr. 1.800,-  Bókasafnskortið gildir einnig í Borgarbókasafn Reykjavíkur og í Bókasafnið í Mosfellsbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert