Ríkisstjórnir hafi brugðist læknum

„Læknar hafa verið látnir hrapa í launum í samanburði við aðra samanburðarhópa. Þetta augljósa ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart opinberum starfsmönnum hefur meðal annars valdið áralangri óánægju lækna, kennara, lögreglumanna og fleiri hópa með sín starfskjör, með tilheyrandi tjóni.“ Þetta segir Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á Heilsugæslunni í Árbæ. 

Hann bendir á það að eins og til þess bærar stofnanir hafi bent á nýlega, hafi flestar síðustu ríkisstjórnir á Íslandi „brugðist þeirri sjálfsögðu skyldu sinni, að koma sér upp vandaðri launastefnu fyrir sína lykilstarfsmenn og þannig látið það ógert að tryggja þeim viðunandi kjör, til samræmis við menntun þeirra og starfsábyrgð, ásamt því, að gæta innbyrðis jafnvægi í launaþróun meðal hópanna.“

Lækkaðir í launum um 18% í kjölfar hrunsins

Af fyrrgreindum ástæðum sitji læknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins enn óbættir hjá garði, eftir að hafa verið lækkaðir í launum um allt að 18% í kjölfar hrunsins. „Og það þrátt fyrir endurtekin loforð stjórnsýslu um þá leiðréttingu launanna, sem flestir aðrir hafa reyndar þegar fengið.“

„Þannig má til sanns vegar færa, að væntanlegur nýr launasamningur mun ekki færa læknum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins neina kjarabót fyrr en hækkunin fer umfram 18%. Og þá á auðvitað eftir að skoða aðrar breytur,“ segir Gunnar.

Heilbrigðisþjónusta standi frammi fyrir kerfishruni

Gunnar segir það algjörlega fráleitt að læknar skuli nú „píndir“ með þessum hætti í þann ljóta leik að láta það bitna á skjólstæðingum sínum að stjórnvöld skuli láta starfsumhverfi og kjör þeirra drabbast þannig að heilbrigðisþjónustan í heild stendur nú frammi fyrir mögulegu kerfishruni. „Verkföll eru í eðli sínu meiðandi fyrir lækna og brjóta illa gegn starfsheiðri þeirra, en kerfishrun heilbrigðisþjónustunnar er sínu alvarlegra. Þess vegna er verkfall lækna neyðarúrræði.“

„Samninganefnd lækna veit, að hún á ekkert erindi til umbjóðenda sinna með neitt minna en samning um kjarabætur, sem nær sáttum í stéttinni. Og hún veit því að bæturnar verða að vera langt umfram þau ca. 20% sem lagfærir aðeins hrapið, sem áður er lýst.“

Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ skoðar einn …
Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ skoðar einn skjólstæðing sinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert