Fara svaðilför til að bjarga húsum

Fokskemmdirnar á húsinu sáust þegar flogið var yfir svæðið þann …
Fokskemmdirnar á húsinu sáust þegar flogið var yfir svæðið þann 27. desember sl. Ljósmynd/Sævar Óli Hjörvarsson

„Þetta verður mikill björgunarleiðangur. Um leið og við björgum þessu húsi komum við í veg fyrir frekara tjón á húsunum í kring,“ segir Vernharð Guðnason, sumarhúsaeigandi í Fljótavík á Hornströndum. Nýverið komst upp um töluvert foktjón á sumarhúsinu Bárubæ sem er í byggingu á svæðinu, og hyggst Vernharð fara í svaðilför á næstu dögum með hópi fólks til að forða frekara tjóni.

„Við verðum tólf saman og förum á föstudaginn frá Ísafirði á björgunarskipinu Daníel Sigmundssyni með sex snjósleða með okkur,“ segir Vernharð, en áætlað er að leiðangurinn muni taka tvo daga. Siglt verður inn í Hesteyri, og mun hópurinn keyra yfir í Fljótavík á snjósleðunum. Engir vegir eru á svæðinu og aðgengi mjög takmarkað, en ekki hefur verið búið í Fljótavík síðan árið 1946. Þar eru þó átta sumarhús auk slysavarnarskýlis.

Skemmdirnar mögulega meiri en talið er

Vernharð segir upp hafa komist um foktjónið þegar flogið var yfir svæðið þann 27. desember sl. „Við sumarhúsaeigendurnir sem eigum þarna hús höfðum áhyggjur af vondum veðrum sem hafa gengið yfir í haust og þá sérstaklega desember. Það var búið að ákveða að þegar veður leyfði myndum við fljúga þarna yfir,“ segir hann. 

Farið var í eftirlitsflug á TF-VIK og var flugmaður Örn Ingólfsson. Úr lofti mátti sjá töluvert tjón á Bárubæ, þar sem járn, pappi og spýtur höfðu fokið og skyggni á húsinu var horfið. Þá hafði flaggstöng við annað hús brotnað og greina mátti frekari skemmdir á húsum í kring.

Vernharð segir skemmdirnar mögulega vera meiri, þar sem erfitt hafi verið að greina það á myndum hvort allar rúður í öðrum húsum væru heilar. „Við sjáum þó smávægilegt tjón á öðrum húsum svo við ætlum að fara og gera við þessar skemmdir og ganga úr skugga um að það sé í lagi með önnur hús á staðnum.“

Margir tilbúnir að leggja hönd á plóg

Sævar Óli Hjörvarsson, frændi og æskuvinur Vernharðs, er eigandi Bárubæjar, en bygging á húsinu hófst í sumar. Þegar upp komst um tjónið hófst Vernharð strax handa við að safna saman liði til að fara þangað til að bjarga því sem bjargað verður en margir þættir setja strik í reikninginn þegar ferð á Hornstrandir er skipulögð á þessum árstíma.

„Það er ekki hægt að koma frá sjó inn í Fljótavík á þessum árstíma því það er svo mikið brim. Þess vegna förum við yfir á Hesteyri því þar er mun rólegra í sjóinn og yfirleitt alltaf hægt að koma inn.“ Þá segir hann mjög brýnt að gera við þær skemmdir sem þegar hafa orðið, þar sem sumarhúsaeigendur á svæðinu séu ekki rónni að vita af fljúgandi braki sem geti skemmt glugga og sett önnur hús í hættu.

„Þetta er auðvitað mikið sjokk fyrir það fólk sem á þetta hús. En við létum boðið ganga um að við þyrftum aðstoð röskra manna og kvenna í verkefnið og stöndum nú frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að velja inn á þann lista sem fer þar sem fleiri vildu koma en pláss er fyrir. Það eru mjög margir boðnir og búnir að leggja hönd á plóg sem er frábært og við kunnum miklar þakkir fyrir.“

Bárubær í Fljótavík í ágústlok.
Bárubær í Fljótavík í ágústlok. Ljósmynd/Fljotavik.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert