Árangurinn kemur Sigmundi á óvart

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir árangurinn af leiðréttingunni meiri en vænst var og að það komi sér vel að verðbólga sé afar lítil. Hann boðar aðgerðir til afnáms hafta í byrjun nýs árs. Árangur ríkisstjórnarinnar sé „miklu betri“ en hann þorði að vona þegar hún tók við.

Forsætisráðherra gaf mbl.is kost á viðtali eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins síðdegis í gær. Þar sagði hann árangur ríkisstjórnarinnar meiri en vænst var.

Ríkisstjórnin kynnti stefnuyfirlýsingu sína 22. maí 2013 og má nálgast hana hér.

Sósíalismi sem gengur ekki upp

Haft var eftir Steingrími J. Sigfússyni, fv. fjármálaráðherra, í Morgunblaðinu í vikunni að með því að lækka skatta sé ríkissjóður að afsala sér tekjum. Steingrímur telur að með því sé verið að binda endi á afkomubata hjá ríkissjóði undanfarin ár og að afkomu ríkissjóðs sé nú ógnað. Hann telur sig taka undir greiningu AGS í þessu efni. Hvernig bregstu við þessu?

„Þetta er dæmi um nálgun margra sósíalista á skatta og skattastefnu, sem er órökrétt og hefur hvergi gengið upp. Eins og sést nú kannski best á þeirri breytingu sem hefur orðið frá því að ný ríkisstjórn tók við með nýja stefnu. Á síðasta kjörtímabili vantaði mjög upp á hagvöxt og að sú uppsveifla sem menn höfðu vænst, meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, kæmi í kjölfar kreppunnar.

Jafnframt skiluðu endalausar skattkerfisbreytingar og einkum skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar sér ekki í þeirri tekjuaukningu sem forystumenn þeirrar ríkisstjórnar höfðu gert ráð fyrir. Þvert á móti sköðuðust skattstofnar og tekjur lækkuðu sem því nam. Það sem við sjáum hins vegar núna er að skattstofnar eru að styrkjast og afleiðingin er sú að það hefur tekist tvö ár í röð að leggja fram hallalaus fjárlög en skila á sama tíma tugum milljarða til heimilanna. Það hefði ekki tekist nema vegna þess að innleidd var skynsamlegri stefna í skattamálum, stefna sem var til þess fallin að styrkja skattstofnana en ekki veikja þá eins og gert var á síðasta kjörtímabili.“

Leiðréttingin árangursríkari en væntingar voru um

Verðbólga mælist nú aðeins 0,8%. Þið kynntuð leiðréttinguna í annarri viku nóvembermánaðar. Á fyrri hluta þessa árs voru lagðar fram hrakspár um að þegar leiðréttingin yrði kynnt myndi verðbólga aukast vegna aukinnar einkaneyslu, o.sv.frv. Nú er hins vegar nánast verðhjöðnun þegar leiðréttingin hefur verið framkvæmd?

„Það er auðvitað mjög jákvætt á allan hátt. Það má segja að þróun hagstærða frá því að þetta var kynnt renni í fyrsta lagi enn frekari stoðum undir rökstuðning okkar fyrir því að fara út í þessa aðgerð, eða hluta rökstuðningsins sem við lögðum fram, þ.e.a.s. að þetta væri efnahagslega jákvætt. Þetta er í raun enn þá mikilvægara heldur en komið hefur fram, vegna þess að bæði er verðbólga með allra minnsta móti og vegna þess að við höfum séð vísbendingar um að hlutur einkaneyslu í hagvexti sé mjög lítill - töluvert minni en menn höfðu gert ráð fyrir. Þannig að fullyrðingar um að hagvöxtur yrði keyrður áfram af einkaneyslu virðast ekki réttar. Þvert á móti hefur vantað þar upp á. Þannig að áhrifin af þessu eiga ekki aðeins að vera góð, heldur má segja að þetta sé jafnvel enn mikilvægari efnahagsaðgerð en við höfðum vonað.“

Skref stigin til afnáms hafta í byrjun nýs árs

Nú er eitt og hálft ár liðið síðan ríkisstjórnin tók við völdunum í maí 2013. Hvernig finnst þér ríkisstjórnin standa núna?

„Ég er mjög ánægður með árangurinn það sem af er. Hann er raunar miklu betri en ég hefði þorað að vona þegar við tókum við og var ég þó bjartsýnn þá. Svoleiðis að það er ánægjulegt við áramót að vera svona sáttur við stöðuna, sérstaklega þar sem það eykur manni bjartsýni um að hægt sé að halda áfram að byggja upp á hinum ýmsu sviðum á nýju ári. Vissulega eru stór óleyst mál enn þá til staðar. Haftamálið er risastórt mál sem er framarlega á dagskránni á nýju ári. Það má gera ráð fyrir því að það dragi til tíðinda snemma á nýja árinu. Þar hefur gamla árið nýst vel til undirbúnings, þannig að við teljum okkur vera tilbúna að tækla þau mál og leiða til lykta farsællega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert