Framlög og sóknargjöld tvennt ólík

Agnes M. Sigurðardóttir biskup segir sóknargjöld og framlög til heilbrigðismála …
Agnes M. Sigurðardóttir biskup segir sóknargjöld og framlög til heilbrigðismála tvennt ólíkt. mbl.is/Golli

„Það stóðu vonir til þess að [endurgreiðsla sóknargjalda á fjórum árum] myndi standa eins og búið var að samþykkja í ríkisstjórninni og fela innanríkisráðherra. Við viljum bara að það sé farið eftir því sem var búið að stefna að“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, í samtali við mbl.is.

Þjóðkirkjan tók á sig 663 milljóna króna niðurskurð eftir hrun og í sumar lagði starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins  til að þjóðkirkjan fengi hann endurgreiddan. 

Í samtali við Ríkisútvarpið fyrr í dag staðfesti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að málið væri til meðferðar í innanríkisráðuneytinu og sagðist gera ráð fyrir því að samkomulag milli ríkis og kirkju myndi nást.

Agnes sagðist ekki hafa heyrt af yfirlýsingum forsætisráðherra þegar mbl.is náði af henni tali en að hún tæki fréttunum fagnandi. Hún segir aðdragandann að endurgreiðslunni hafa verið langan en að síðast þegar hún vissi væri málið ekki í þessum farvegi.

Sóknargjöld ekki framlag frá ríkinu

Agnes segir sóknargjöld hafa verið skilgreind sem félagsgjöld með lögum frá árinu 1987 og að því séu sóknargjöld í raun ekki framlag frá ríkinu. Aðspurð segir hún það framlag sem renni til Landspítalans vera beint ríkisframlag og því ólíkt sóknargjöldum í eðli sínu.

„Við þurfum auðvitað að leysa læknadeiluna líka, menn geta ekki búið við að heilbrigðiskerfinu hraki en það er ekki annað hvort eða heldur bæði og. Það lá fyrir að þetta [endurgreiðsla sóknargjalda] myndi ganga upp á fjórum árum og það var búið að vinna eftir því. Það er slæmt að hlutirnir gangi ekki eftir þegar búið var að gera ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun,“ segir hún.

Sigmundur bað um bréfið

Í viðtali Sigmundar við Rúv kemur fram að hann hafi sjálfur beðið Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup, um að skrifa honum bréf sem varaði við því að sóknargjöld yrðu skorin niður.

„Þetta bréf var skrifað að beiðni minni þar sem ég hafði orðið þess áskynja að kirkjan teldi vanta nokkuð upp á fjárveitingar. Og vísaði meðal annars í samkomulag,“ segir forsætisráðherra. „Kirkjan hefur gefið töluvert eftir af því fjármagni sem hún hefur átt tilkall til á undanförnum árum, og í raun og veru alveg frá því í efnahagshruninu. Biskup bendir á það í bréfinu að sóknargjöldin séu bundin í lög, og að það þurfi að fara eftir þeim lögum,“ segir Sigmundur í viðtalinu.

Biskup rétt að Sigmundur hafi beðið sig að skrifa bréfið en kallar það hinsvegar minnisblað. „Við tókum saman staðreyndir málsins eins og við vissum þær bestar og ég sendi þetta til hans í lok nóvember,“ segir Agnes og gefur ekki til kynna að henni þyki bón forsætisráðherra óeðlileg.

Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson við vinnslu fréttarinnar. 

Tengdar fréttir:

Sóknargjöld þurfa að hækka um 663 milljónir

Vilja hækka sóknargjöld í áföngum

Sigmundur gerir ráð fyrir að kirkjan fái hluta niðurskurðarins endurgreiddan.
Sigmundur gerir ráð fyrir að kirkjan fái hluta niðurskurðarins endurgreiddan. mbl.is/ Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert