Gefur ágóðann til langveikra barna

Á þriðja hundrað eintaka hafa selst af Rögguréttum.
Á þriðja hundrað eintaka hafa selst af Rögguréttum.

Undanfarnar vikur hefur matreiðslubókin Rögguréttir selst í hundruðum eintaka. Hún finnst þó hvergi í bókabúðum þar sem um er að ræða sérstakt góðgerðarverkefni til styrktar Umhyggju - félagi til stuðnings langveikra barna.

Að verkefninu standa þær Ragnheiður Ketilsdóttir og Auður Steinarsdóttir, en báðar vinna þær hjá Íslenskum aðalverktökum, Ragnheiður sem matráður og Auður sem fjárreiðustjóri. Í samtali við mbl.is segir Ragnheiður að verkefnið hafi gengið vonum framar.

„Fyrst áttu þetta bara að vera í kringum fimmtíu bækur fyrir samstarfsfólk okkar og nánustu vini. Nú erum við hins vegar nálægt því að hafa selt 250 bækur. Þannig hefur næstum hálf milljón króna safnast til styrktar félaginu,“ segir Ragnheiður, en bókin kostar 2.000 krónur og rennur ágóðinn óskiptur til Umhyggju.

„Fóru að renna á okkur tvær grímur“

„Auður stakk upp á þessu núna rétt fyrir jól, að skella saman mínum vinsælustu fimmtudagsréttum í eitt hefti og gefa út til styrktar góðu málefni,“ segir Ragnheiður og útskýrir nánar: „Ég hef það fyrir vana að hafa betri mat en venjulega á fimmtudögum. Þar sem ég er ein í eldhúsinu að þjónusta um það bil 50 manns þá þurfa réttirnir að vera einfaldir en jafnframt bragðgóðir.“

Íslenskir aðalverktakar hafa styrkt verkefnið frá upphafi að sögn Ragnheiðar og greiðir fyrirtækið allan kostnað við sendingar, prentun og annað efni. „Sá styrkur var mjög auðsóttur en þegar eintökin voru orðin fleiri en hundrað fóru að renna á okkur tvær grímur, þar sem við bjuggumst jafnvel við að þeir myndu gera athugasemdir við aukinn sendingar- og efniskostnað. En þeir stóðu þá fast við bakið á okkur og standa enn.“

Þrjú upplög selst upp á skömmum tíma

Ekki er nema rúmur hálfur mánuður síðan fyrsta bókin kom út en á þeim tíma hafa heil þrjú upplög bókarinnar selst upp á skömmum tíma. „Þetta byrjaði ósköp smátt í sniðum, við byrjuðum á litlum pósti á facebook og ég var búin að áætla að keyra allar bækurnar út sjálf. Það hefur ekki alveg gengið eftir enda hafa eintök þegar ratað til bæði Noregs og Danmerkur,“ segir Ragnheiður og bætir við að nokkur fjöldi bíði eftir eintaki.

„Það þarf oft svo lítið til að geta gert svo mikið.“

Til að kaupa bókina er hægt að hafa samband við Ragnheiði gegnum Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert