Skoðar eðli sóknargjalda

Vafi hefur leikið á því hvort sóknargjöld séu í raun …
Vafi hefur leikið á því hvort sóknargjöld séu í raun félagsgjöld sem ríkið innheimtir fyrir söfnuði eða hvort það sé beint framlag ríkisins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Skiptar skoðanir hafa verið um eðli sóknargjalda sem ríkið greiðir til trú- og lífsskoðunarfélaga, hvort þau séu félagsgjöld eða beint framlag ríkisins. Nú er unnið að því á vegum innanríkisráðuneytisins að skýra hvernig beri að líta á sóknargjöldin, að sögn Ólafar Nordal, innanríkisráðherra.

Sóknargjöld voru upphaflega innheimt af sóknarnefndum kirkjunnar en árið 1987 tók ríkið yfir innheimtu þeirra. Samkvæmt lögum um sóknargjöld útdeilir ríkið hlutdeild af tekjuskatti til trú- og lífsskoðunarfélaga. Fjárhæðin nemur nú 810 krónum á mánuði fyrir hvern einstakling en var 750 krónur á síðasta ári. Hækkunin tók mið af niðurstöðu starfshóps innanríkisráðherra sem taldi að sóknargjald hafi verið skert meira en framlög til annarra stofnana sem heyra undir ráðuneytið í niðurskurði í kjölfar efnahagshrunsins.

Á reiki hefur verið hvernig beri að líta á sóknargjöldin formlega. Fulltrúar þjóðkirkjunnar telja þau vera félagsgjald sem ríkið sjái um að innheimta samhliða tekjuskatti. Forseti kirkjuþings gagnrýndi meðal annars í byrjun nóvember að fulltrúar kirkjunnar þyrftu að standa í rökræðum við fulltrúa ríkisvaldsins um þetta atriði.

Aðrir hafa hins vegar bent á að sóknargjöld séu í raun aðeins beint framlag ríkisins til trú- og lífsskoðunarfélaga enda greiði allir sömu skattprósentuna, óháð því hvort þeir tilheyra slíkum félögum eða ekki. Séu sóknargjöld í raun félagsgjöld sem ríkið sjái aðeins um að innheimta feli það í sér að þeir sem standa utan félaga greiði hærri skatt en þeir sem tilheyra þeim.

Á að skila tillögum í þessum mánuði

„Það er alltaf þessi spurning hvort þetta séu sameiginlegir peningar sem fara í sameiginlega sjóði og eru svo færðir út aftur eða hvort það sé þannig eins og margir vilja meina að þetta sé algerlega eyrnamerkt og það megi ekki snerta það,“ segir Ólöf um sóknargjöldin.

Því hefur hún hefur fengið Sigurð Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að fara yfir fjárhagslegt samsband ríkis og kirkju. Hann mun meðal annars fara yfir hvernig hægt verði að koma til móts við þjóðkirkjuna á grundvelli niðurstöðu starfshóp innanríkisráðherra en einnig skoða sérstaklega hvernig beri að líta á sóknargjöldin formlega. Sjálf vill Ólöf ekki taka beina afstöðu til þess hvort líta beri á sóknargjöld sem félagsgjöld eða bein framlög ríkisins fyrr en hún hefur fastara land undir fótum.

„Þetta er það grundvallaratriði sem ég er að horfa á núna. Fyrir utan umræðuna um niðurskurðinn er ég að líta til þess hvernig eigi að líta á sóknargjöldin og er að láta skoða það sérstaklega,“ segir hún.

Brýnt sé að þessi skoðun gangi hratt fyrir sig svo hægt sé að vinna málið áfram. Því hefur ráðuneytið óskað eftir því að Sigurður skili tillögum sínum í þessum mánuði.

Fyrri frétt mbl.is: Telja sóknargjöld vera félagsgjöld

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert