Vildu lengri frest til greinargerðaskrifa

mbl.is/Hjörtur

Verjendur í SPRON-málinu fóru fram á lengri frest til greinargerðaskrifa fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar til stóð að taka málið fyrir. Gáfu þeir þá skýringu að torsóttara hefði reynst að ganga frá greinargerðum en gert hefði verið ráð fyrir. Skrifin væru engu að síður langt á veg komin. Var sammælst um að taka málið aftur fyrir 3. febrúar.

Málið er höfðað af sérstökum saksóknara gegn Guðmundi Erni Haukssyni, Ara Bergmann Einarssyni, Jóhanni Ásgeiri Baldurs, Margréti Guðmundsdóttur og Rannveigu Rist fyrir að hafa, sem forstjóri eða stjórnarmenn í SPRON, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans verulega í hættu með því að fara út fyrir lánveitingarheimildir þegar félagið lánaði félaginu Exista tvo milljarða króna án trygginga í september 2008. Hinir ákærðu voru ekki viðstaddir í héraðsdómi í morgun.

Verjendur bentu á að takmarkaðar upplýsingar lægju fyrir um fjárhagsstöðu Exista. Meðal annars á þeim tíma þegar umrætt lán var veitt. Það hefði tafið gagnaöflun. Til að mynda lægju uppgjör ekki fyrir og fleiri gögn sem mikilvæg væru að mati verjanda til þess að varpa ljósi á þær forsendur sem lánveitingin hefði verið byggð á.

Verjendur óskuðu ennfremur eftir því að fá að hafa samband við vitni í málinu til þess að upplýsa þessi mál. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari gerði ekki athugasemd við það og var það bókað. Björn Þorvaldsson saksóknari lagðist ekki gegn því að verjendur gætu haft samband við vitni í þessum tilgangi en lét hins vegar bóka að slík samskipti gætu haft áhrif á trúverðugleika vitnanna.

Fréttir mbl.is:

Rannveig Rist neitaði sök

1.289 blaðsíður í SPRON-máli

Snúningurinn í SPRON-málinu

Lánið til Exista „mjög óvenjulegt“

Rannveig Rist ákærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert