Fóru tvisvar út af á stuttum kafla

Hér á landi getur veður og færð oft reynst óvönum …
Hér á landi getur veður og færð oft reynst óvönum bílstjórum erfið, sérstaklega ef þeir hafa litla reynslu af snjó og hálku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar færðin er jafnslæm og hún var í gær, með tilheyrandi hálku og hættu, sést vel að margir ferðamenn sem hingað koma eru bæði óvanir og óhæfir til aksturs við slíkar aðstæður. Þetta skapar bæði þeim og öðrum vegfarendum hættu. Þetta segir leiðsögumaðurinn Páll Jónsson, en í hálkunni í gær keyrði hann fram á unga Ástrala sem höfðu lent utan vegar og greinilegt var að reynsla þeirra í hálku var lítil sem engin. Stuttu eftir að hann kom þeim aftur upp á veginn keyrði hann aftur fram á þau utan vegar.

Margir ferðamenn óvanir þessari færð

Páll rifjar upp að færðin í gær hafi ekki verið neitt mjög góð. „Það var blautt á veginum og vatnsslabb,“ segir hann, en hann kom keyrandi frá Gullfossi. Hann segir þetta aðstæður sem flestir Íslendingar séu vanir, enda hálkan nokkuð sem Íslendingar alist upp við.

„Aftur á móti sá maður hvernig för voru um allan veg og skrensur út í kant,“ segir Páll. Rétt við Gullfoss kom hann svo að fólki sem stóð úti í vegkantinum og veifaði, en Suzuki-jeppi var þar úti í skafli. „Þetta voru fjórir Ástralar, tveir strákar og tvær stelpur, öll 22 ára gömul.“

Við slíkar aðstæður þarf að velta fyrir sér hvort eigi að aðstoða við að draga bílinn að sögn Páls, en greinilegt er að hann hafi eitthvað tjónast og dæmi séu um að menn fari svo í tryggingafélag þess sem dregur bílinn og fari fram á bætur. Hann hafi þó ákveðið að aðstoða þau, jafnvel þótt hann hafi verið þess fullviss að þau væru ekki fullfær um að halda akstrinum áfram miðað við reynslu af svona akstri.

Aftur farin út af veginum

Fljótlega eftir að þau eru lögð af stað aftur keyrir Páll svo fram á þau aftur utan vegar, en þá var bíllinn í talsverðum hliðarhalla og erfiðara að koma honum aftur á veginn. Hann hafi því tekið þau upp og skutlað á Kaffi Gullfoss og hringt á bílaleiguna og tilkynnt atvikið.

„Á svona dögum er hver bíllinn á fætur öðrum búinn að skrensa á veginum og mikil ævintýri. Sem betur fer gerðist ekkert alvarlegt hjá þeim,“ segir Páll.

Aukinn vetrartúrismi ýtir undir vandamálið

Hann veltir þeirri spurningu fyrir sér hvort ferðamenn sem hafa enga reynslu af svona ferðalögum hafi yfir höfuð eitthvað að gera út í hálku og slabb. „Spurningin með þetta er að þau ráða ekkert við að keyra um Ísland um miðjan janúar og enda út af á 500 metra fresti.“

Hann segir þó enga eina beina lausn við þessu, en ljóst sé að margir fari út í aðstæður sem þeir þekki ekki og ráði ekki við. „Ég veit samt ekki hvað á að gera við þessu, en við erum að ýta undir vetrartúrisma og þannig fáum við hingað fólk sem svo endar á Yaris uppi á Skeiðarársandi og björgunarsveitir þurfa að sækja þá, jafnvel á brynvörðum bíl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert