Framhaldið alfarið í höndum Íslands

AFP

Evrópusambandið gerir enga athugasemd við það taki íslensk stjórnvöld ákvörðun um að draga formlega til baka umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Það sé alfarið ákvörðun Íslands. Landið verði eftir sem áður mikilvægur samstarfsaðili Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, Schengen-samstarfið og í Norðurskautsmálum.

„Hvort sem Ísland ákveður að halda áfram aðildarviðræðunum eða draga til baka aðildarumsóknina væri það ákvörðun sem er eingöngu Íslands að taka. Hver sem niðurstaðan kann að verða verður Ísland áfram mikilvægur samstarfsaðili Evrópusambandsins í gegnum þátttöku landsins í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, apild þess að Schengen-svæðinu sem og í gegnum samvinnu í málefnum Norðurslóða,“ segir í svari til mbl.is frá stækkunardeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti því yfir á sunnudaginn að von væri á þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir ekki liggja nákvæmlega fyrir hvenær tillagan komi fram en vilji hans í málinu sé skýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert