Verður gott að búa í Fjallabyggð

Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar. mbl.is/Jakob Fannar

Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs, var í gær ráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar. Í samtali við mbl.is segir Gunnar að ráðninguna hafi borið snögglega að. „Það var fyrst haft samband við mig fyrir rúmlega viku. Einhverra hluta vegna ákváðu þeir að heyra í mér og ég sló til þar sem mér finnst þetta spennandi verkefni að fást við.“

Að sögn Gunnars eru nóg verkefni í sveitarfélaginu. „Það er verið að taka til á skíðasvæðunum og byggja golfvöll, auk þess sem sem líftæknifyrirtæki Róberts Guðfinnssonar gæti gefið okkur ýmsa möguleika. Meðal annars gætu brottfluttir Siglfirðingar og Ólafsfirðingar, sem farið hafa annað til að sækja sér menntun, komið til baka og fengið störf í sinni heimabyggð.“

Núningur í kjölfar sameiningar

Fjallabyggð er sveitafélag nyrst á Tröllaskaga og varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar í júní árið 2006. Forsenda fyrir sameiningu bæjanna var að ráðist yrði í gerð Héðinsfjarðarganga, sem opnuðust árið 2010.

Gunnar segir göngin hafa markað tímamót þrátt fyrir ýmsa árekstra í kjölfar sameiningarinnar. „Eftir að byggðarkjarnarnir tveir voru tengdir saman með þessum hætti hefur verið ákveðinn núningur en sem betur fer sýnist mér hann fara minnkandi. Það er mikilvægt fyrir íbúana að líta á sig sem íbúa í Fjallabyggð hvort sem þeir búa á Siglufirði eða Ólafsfirði.“

Aðspurður hvaða mál hann hyggist setja á oddinn segist Gunnar leggja áherslu á að fylgja fyrirliggjandi framkvæmdum eftir. „Ég mun síðan fara yfir rekstur bæjarfélagsins sem mér þykir vera í mjög góðu standi þótt eflaust sé hægt að gera betur.“

Lakara að búa í Kópavogi en áður?

Því hefur verið fleygt að ekki sé lengur jafngott að búa í Kópavogi og áður, hvað finnst þér?

„Það verður eitthvað lakara núna,“ segir Gunnar og hlær við. „Að minnsta kosti verður mjög gott að búa í Fjallabyggð.“ Hann bætir við að kjörorð Kópavogs, sem þarna er vísað í, hafi komið upp í kosningabaráttunni árið 1994. 

„Ég stóð þá á óbyggðu svæði í Kópavogi, sem allt er orðið byggt núna, og talaði meðal annars um byggingu leikskóla og lagningu gatna. Þarna var kreppa og allt ómögulegt en við vorum með skýra framtíðarsýn fyrir bæinn. Ég þurfti hins vegar að fara með kjörorðið fjörutíu sinnum áður en leikstjóri auglýsingarinnar var sáttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert