Hringurinn að þrengjast um matsmenn

Komið með Annþór Kristján Karlsson og Börk Birgisson fyrir dómara.
Komið með Annþór Kristján Karlsson og Börk Birgisson fyrir dómara.

Enn hafa engir yfirmatsmenn verið dómkvaddir í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar sem gefið er að sök að hafa valdið dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni. Verjandi Annþórs segir hringinn að þrengjast um hverjir verði fengnir til að gefa mat og vonast til að fyrirtaka geti farið fram fljótlega.

Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyr­ir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með of­beldi að fanga á Litla-Hrauni og veitt hon­um högg á kvið með þeim af­leiðing­um að rof kom á milta og á bláæð frá milt­anu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völd­um inn­vort­is blæðinga.

Rúmt hálft ár er síðan Hæstiréttur átaldi drátt sem hefur orðið á dómskvaðningu yfirmatsmanna. Verjendur Annþórs og Barkar fóru upphaflega fram á að fá erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og skýrslu tveggja prófessora í sálfræði um atferli fanga á upptöku úr öryggismyndavélum. Hæstiréttur gerði síðan dómara í málinu að finna sjálfur matsmenn.

„Hringurinn er að þrengjast varðandi hvaða aðilar munu taka þetta að sér. Ég geri ráð fyrir að það verði boðað þinghald fljótlega til að ganga formlega frá dómkvaðningunni,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs í málinu.

Erfitt hafi reynst að finna hæfa aðila erlendis til að gefa mat í málinu. Það skýri þann drátt sem orðið hefur á því. Ekki sé þó búið að staðfesta neina matsmenn ennþá.

Fyrri frétt mbl.is: Enn engir yfirmatsmenn dómkvaddir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert