Vélbyssurnar eru enn í landinu

„Það er enn beðið eftir hentugu tækifæri til þess að flytja þær aftur til Noregs,“ segir Hafnhildur Brynja stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is, spurð hver staðan sé með 250 MP5 vélbyssur sem Gæslan fékk frá norska hernum fyrir um ári.

Fjölmiðlar fjölluðu mikið um málið á síðasta ári en Landhelgisgæslan taldi að um gjöf væri að ræða frá Norðmönnum. Norski herinn hefur hins vegar sagt að alltaf hafi staðið til að greiðsla kæmi fyrir vopnin. Gæslan hefur sagt að ekki komi til greina að kaupa byssurnar af Norðmönnum. Fyrir vikið var ákveðið að þær yrðu fluttar aftur til Noregs. Vopnin hafa verið geymd í sérstakri geymslu á vegum Gæslunnar. Tollgæslan innsiglaði byssurnar í geymslunni í haust vegna þess að pappírar vegna flutnings þeirra til landsins reyndust ekki í lagi.

Hrafnhildur segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvenær byssurnar verði fluttar aftur til Noregs. Sameiginlegar æfingar séu annað slagið á milli Gæslunnar og Norðmanna og önnur slík samskipti og beðið sé eftir hentugu tækifæri til þess að skila vopnunum. Til stóð að lögreglan fengi 150 MP5 byssur af þessum 250 og hefur hún lýst áhuga á að hluti af byssunum verði keyptur. Ekki liggur fyrir hvort af því verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert