Vilja tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins skrifuðu undir samninginn.

Lögreglu höfuðborgarsvæðisins bárust 593 tilkynningar um heimilisófrið í Reykjavík árið 2013 en af þeim voru 438 mál skilgreind sem ágreiningur og 155 mál sem ofbeldi. Í dag var undirritaður samstarfssamningur lögreglunnar og Reykjavíkurborgar um átak gegn heimilisofbeldi.

Það voru þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sem skrifuðu undir samninginn en markmið hans er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á þeim heimilisofbeldismálum sem upp koma í því skyni að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.

Í rannsókn á ofbeldi gegn konum sem Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd vann fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið árið 2010 kemur fram að rúmlega 42% aðspurðra kvenna á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma eftir 16 ára aldur. Þegar hlutfallið var umreiknað miðað við fjölda kvenna jafngildir það að 44-49 þúsund konur á þessu aldurbili hafi verið beittar ofbeldi á lífsleiðinni. Rúmlega 22% kvenna höfðu verð beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Engar innlendar rannsóknir eru til þar sem heimilisofbeldi sem karlar verða fyrir er sérstaklega skoðað.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tilgreint margvíslegar afleiðingar kynbundins ofbeldis og lítur á það sem heilbrigðisvandamál. Það er vitað að heilsufarslegar afleiðingar þess að búa við heimilisofbeldi eru miklar; líkamlegir verkir, aukin tíðni veikinda, þunglyndi, áfallastreituröskun, svefnerfiðleikar, andlegir sjúkdómar, aukin tíðni sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga og áfengis- og fíkniefnamisnotkun.

Samkvæmt upplýsingum úr skráningakerfi Barnaverndar Reykjavíkur bárust á tímabilinu janúar til ágústloka 2014 tilkynningar um átök á heimilum 69 barna en þar af voru tilkynningar frá lögreglu vegna 54 barna. Fram kom í skýrslu sem Barnaheill gaf út árið 2011 að jafnvel þótt börn verði ekki sjálf fyrir líkamlegu ofbeldi er þeim afar skaðlegt að búa við aðstæður þar sem foreldri er beitt ofbeldi.

„Kostnaður íslensks samfélags vegna ofbeldis hefur ekki verið reiknaður og því erfitt að meta fjárhagslegan ávinning þess að koma í veg fyrir það. Hins vegar er auðvelt að  sjá fyrir sér afleiðingar þess fyrir einstaklinga og þær fjárhæðir sem afleiðingar ofbeldis kosta samfélagið vegna veikinda þeirra sem fyrir því verða.  Heimilisofbeldi er lýðheilsuvandamál.

Með samvinnu aðila verður þjónusta við þolendur heimilisofbeldis bætt til muna með því að samhæfa aðgerðir allra þeirra sem að málinu koma s.s. Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndar Reykjavíkur og Velferðarsviðs Reykjavíkur. Öflug upplýsingagjöf um úrræði, áhættugreining á því hvort ofbeldi geti endurtekið sig og eftirfylgni með þolanda á þjónustumiðstöð í hverfinu eru einnig leiðir til þess að vernda þá sem fyrir ofbeldinu verða. Gerendur fá einnig aðstoð í formi ráðgjafar og er boðin meðferð,“ segir í tilkynningu.

Framkvæmdin í stuttu máli

Þegar lögreglan er kölluð út vegna heimilisofbeldis eða gruns þar um hefur hún samband við Velferðarsvið borgarinnar og fer ráðgjafi með í útkallið (eitt símanúmer og einn á bakvakt). Ef barn er á heimilinu er jafnframt haft samband við Barnavernd Reykjavíkur sem sendir starfsmann á staðinn til að sinna barninu.

Lögreglan tekur upp á staðnum framburð aðila og vitna og ljósmyndar vettvang. Lögð er áhersla á að þolandi sæti læknisrannsókn. Hún veitir einnig upplýsingar um úrræðin nálgunarbann og brottvísun af heimili. Lögregla og ráðgjafi veita upplýsingar um stuðningsúrræði fyrir þolendur og gerendur. Markmiðið er að gerandi og þolendur leiti sér aðstoðar.

Ráðgjafi Velferðarsviðs veitir fyrstu aðstoð sem felur m.a. í sér að fylgja þolanda til læknis og hvetja þolanda til að fá áverkavottorð, koma fjölskyldunni í öruggt skjól eða finna húsnæði fyrir meintan geranda ef þörf er á. Þá sér ráðgjafinn um að vísa þolanda til ráðgjafar hjá þjónustumiðstöð í því hverfi þar sem hann á lögheimili í. Kallaður er til túlkur er þörf er á.

Ef barn eða börn eru á staðnum sinnir barnaverndarstarfsmaður því/þeim.

Ráðgjafi velferðarþjónustu hefur síðan samband við þolanda innan fjögurra virkra daga og býður þolanda upp á viðtal.

Eftirfylgni fer svo fram með heimsókn á heimili innan viku frá atburði. Í eftirfylgniviðtal á heimili fara lögregla og ráðgjafi Velferðarsviðs. Í þeim tilvikum þegar ráðgjafi velferðarþjónustu/barnaverndar kemur ekki að málum fara tveir rannsóknarlögreglumenn í heimsóknina.

Öll ofbeldismál verða áhættugreind. Lagt er mat á hve miklar líkur eru á mjög alvarlegum atburði og/eða ítrekun. Áhættugreining er m.a. nýtt við þá ákvörðun lögreglustjóra hvort leggja beri á nálgunarbann og brottvísun af heimili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert