13 ára drengur meðal ræðumanna

Ráðstefnan er haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Ráðstefnan er haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Af Wikipedia

„Þetta hefur verið langt ferli að skipuleggja þessa ráðstefnu. Hún hefur jafnframt vakið mikla alþjóðlega athygli og hefur það aukið á vinnuna.“ Þetta segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins, en hún er nú stödd í New York þar sem að BarberShop ráðstefnan hefst í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag.

Eins og áður hefur komið fram er ráðstefnan skipulögð af Íslandi og Surinam. Er ráðstefnan haldin samhliða undirskriftarsöfnuninni HeForShe, átaki UN Women sem á að fá karl­menn og drengi til að taka virk­an þátt í bar­áttu fyr­ir jafn­rétti kynj­anna og gegn mis­rétti og of­beldi gegn kon­um.

Ráðstefnan stendur yfir í tvo daga, í dag og á morgun. Að sögn Urðar munu vinnuhópar starfa í dag en á morgun verða ávörp.

Hvað þýðir að vera karl í dag?

„Vinnuhóparnir munu ræða sín á milli hvað sé hægt að gera til þess að breyta stöðunni eins og hún er í dag þegar það kemur að jafnréttismálum. Hvað karlmenn geta lagt af mörkum í jafnréttisbaráttu, hvað það þýðir að vera karl í dag og fleira,“ segir Urður, aðspurð um umræðuefni vinnuhópanna í dag. Hjálmar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum mun aðstoða við að stýra vinnuhópunum.

Ávörpin sem verða á morgun eru ekki af verri endanum en meðal ræðumanna er utanríkisráðherra Íslands, Gunnar Bragi Sveinsson,  Ismanto Adna, íþrótta- og ungmennaráðherra Suriname og fleiri baráttumenn fyrir jafnrétti. Má þar nefna íslenska íþrótta- og athafnamanninn Magnús Scheving.

„Síðan verður einn þrettán ára bandarískur strákur, Max Bryant, sem talar. Hann hefur barist fyrir jafnrétti kynjanna síðan hann var sex ára gamall. Það verður áhugavert að sjá hvað hann hefur til málanna að leggja,“ segir Urður, en ávörpin verða send út í beinni á vefnum.

Fastanefndin verið á kafi síðan í haust

Eins og fyrr kom fram hefur það verið langt ferli að skipuleggja Barber Shop ráðstefnuna. Hefur það verið gert í samstarfi á milli Utanríkisráðuneytisins og Fastanefnd Íslands í New York. „Fastanefndin okkar hefur borið hitan og þungan af þessu og verið í kafi í undirbúningi síðan í haust,“ segir Urður. „Svo fórum við nokkur úr ráðuneytinu á síðustu metrunum. Þetta er gert á íslenska mátann, allir vinna saman.“

Urður segir að ráðstefnan hafi hlotið mikla athygli erlendra fjölmiðla. Hefur verið sagt frá henni m.a. á The Guardian, The Independent, AFP og Daily Telegraph.

„Síðan hafa að minnsta kosti tveir miðlar sent fólk frá sér sérstaklega á ráðstefnuna. Er annar þeirra frá Hollandi en hinn er þýski fjölmiðillinn Spiegel. Auðvitað eru síðan mjög margir fjölmiðlar með fólkið sitt hér til þess að fylgjast með Sameinuðu þjóðunum. Eflaust munu einhverjir úr þeim hópi fjalla einnig um ráðstefnuna.“

Vefsíðu ráðstefnunnar má sjá hér. Þar verður hægt að fylgjast með á morgun.

Fyrri fréttir mbl.is

„Ég er mjúkur femínisti“

„Vilj­um færa rak­ara­stof­una í stærra her­bergi“

Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlatulltrúi Utanríkisráðuneytisins.
Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlatulltrúi Utanríkisráðuneytisins.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert