Ferðaþjónustan verði endurskoðuð

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Borgarráð hefur beint því til velferðarráðs að taka til endurskoðunar hámarksfjölda ferða í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og jafnframt viðbótargjald sem lagt er á vegna umframferða. Lagt var fram minnisblað Strætó bs. um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á borgarráðsfundi í dag.

Í bókun frá borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins segir að gengið hafi verið frá samkomulagi um þessa þjónustu í maí 2014 svo tíminn til að undirbúa breytingar á þjónustunni hefði átt að vera nægur. „Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ekki verði unað við þá grafalvarlegu stöðu sem er á framkvæmd ferðaþjónustu við fatlaða.“

„Breytingarnar áttu að bæta þjónustuna en hafa ekki enn gert það heldur þveröfugt eins og sjá má á fjölda alvarlegra kvartana frá notendum þjónustunnar,“ segir jafnframt í bókuninni. Á þetta hefðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt áherslu við samþykkt í borgarráði 11. desember 2014 og bókuðu að mikilvægi þess að biðtími styttist frá því sem verið hefði og ætti ekki að vera meiri en 10 mínútur frá umsömdum tíma.

„Þá telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að endurskoða verði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík vegna þess að gjald fyrir ferðir umfram 60 á mánuði er of hátt og stangast á við lög sem kveða á um að gjaldið eigi að taka mið af gjaldi fyrir almenningssamgöngur.“

Auk bókunarinnar lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn í 8. liðum. Er þar meðal annars spurt hvaða tölvukerfi það hafi verið sem tekið var upp hjá Strætó til að sinna þessu verkefni, hvort það kerfi hafi verið staðlað eða sérsmíðað og hvort þjónustan hafi verið boðin út.

Þá er spurt hver ráðgjafi Strætó bs. hafi verið við val á þessum búnaði, aðlögun, þjálfun og innleiðingu, hvað tölvukerfið hafi kostnað og hver muni bera kostnaðinn af þeirri leiðréttingu sem þarf að gera. Einnig er spurt hvort sá rekstrarsparnaður sem áætlað var að ná við útboð á þjónustunni muni nást og hvort of mörgu fólki með reynslu hafi verið sagt upp þannig að þekking yfirfærðist ekki við breytingu á þjónustunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert