„Brot á mannréttindum fatlaðs fólks“

Öyrkjabandalag Íslands segir fyrirkomulag ferðaþjónustunnar vera brot á frelsi og …
Öyrkjabandalag Íslands segir fyrirkomulag ferðaþjónustunnar vera brot á frelsi og mannréttindum fatlaðs fólks. mbl.is/Eyþór

„Eins og ferðaþjónustunni er nú fyrirkomið lítum við á að sú skerðing á ferðafrelsi og það þjónustuleysi og mistök sem eiga sér stað daglega séu brot á frelsi og mannréttindum fatlaðs fólks,“ segir í ályktun sem Öryrkjabandalag Íslands hefur sent frá sér. 

Krefst aðalstjórn ÖBÍ þess að sveitastjórnir framfylgi þeim lögbundnu skyldum sem þeim ber er varðar ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Strætó tók yfir rekst­ur þjón­ust­unn­ar alls staðar á höfuðborg­ar­svæðinu, nema í Kópa­vogi, um ára­mót­in og inn­leiddi nýtt kerfi sem hef­ur ekki virkað sem skyldi.

Skerða ferðafrelsi fatlaðs fólks

„Það er talað um að þetta eigi að vera almenningssamgöngur en þarna er verið að skerða ferðafrelsi fatlaðs fólks því það getur aðeins notað þennan vagn í takmörkuð skipti í mánuði,“ segir Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, en aðeins er um að ræða 60 ferðir í mánuði. 

Ellen bendir á það að fötluðu fólki séu ekki „veittar“ þessar 60 ferðir, eins og stjórnendur vilji gjarnan tala um, heldur greiði það fyrir þær. Ef þessar ferðir klárast þarf að greiða 1.100 krónur fyrir hverja aukaferð, sem geta að hámarki orðið 20. Þetta sé einnig ákveðin frelsisskerðing enda sé umframgjaldið mun hærra en fyrir aðrar almenningssamgöngur.

„Fatlað fólk á að fá að ferðast eins og það vill og þarf. Fatlað fólk ferðast jafn mismunandi mikið og allir aðrir,“ segir Ellen. „Fatlað fólk er almenningur - fatlað fólk eru allir, og þjónustan á að vera eins fyrir alla.“

„Hnýsast í persónuhagi fólks“

Ellen segir fatlað fólk ekki njóta þeirra réttinda að gera allt sem það vill því ferðirnar séu takmarkaðar. Þá bendir hún á ferðaþjónustu blindra, þar sem takmarkaðar ferðir eru til einkanota annars vegar, og til læknis hins vegar. „Þetta eru aðeins átján ferðir til einkanota, svo ef einstaklingur vill til dæmis hitta kærustuna sína í hádeginu á hverjum degi þá getur hann ekki gert það. Þetta er í raun mannréttindabrot því það er verið að hnýsast í persónuhagi fólks.“

Þá segist hún ekki geta ímyndað sér annað en að aukinn kostnaður fylgi utanumhaldi, ef fylgjast á með hvers konar ferðir fólk fer hverju sinni.

Erfitt að búast við þjónustu sem ítrekað bregðist

Jafnframt segir hún það mjög bagalegt fyrir fatlað fólk að búast við ákveðinni þjónustu, sem bregðist ítrekað. „Það átti til að mynda að sækja stúlku í skólann klukkan 13 fyrir nokkrum dögum síðan en svo var hún ekki sótt fyrr en 13:50. Það verður að bera þetta saman; ef strætisvagn myndi mæta svo seint yrði fólk gríðarlega ósátt.“

Loks segist hún vonast til þess að þjónustan verði bætt, enda hafi það verið markmiðið með breytingunni. „Þessi þjónusta hlýtur að verða betri með tímanum enda eru öll tæki og tól til staðar. Þetta er oft bara spurning um viðhorf og samráð svo við verðum að trúa því að við séum að horfa fram á bjartari tíma.“

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir ferðaþjónustuna skerða ferðafrelsi fatlaðs …
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir ferðaþjónustuna skerða ferðafrelsi fatlaðs fólks. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert