Ofuráhersla lögð á læknisfræðilega greiningu barna

Skólabörn að leik.
Skólabörn að leik. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Læknisfræðileg greining er orðin að gjaldmiðli fyrir þjónustu við börn með sérþarfir í skólakerfinu að sögn Evalds Sæmundsen, sviðsstjóra rannsókna hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR).

„Börnin fá ekki þjónustu vegna þess að greining er ekki komin, þrátt fyrir að heilmikið sé vitað um þarfir þeirra og hægt að hefjast handa strax. Hin langa bið eftir greiningu er því oft á tíðum óþörf,“ segir Evald.

GRR er þjónustustofnun við börn og unglinga sem þurfa sérhæfðar athuganir, íhlutun og ráðgjöf sem er ekki á færi sveitarfélaga eða stofnana í nærumhverfi að veita.

Þjónusta við greiningu barna skiptist í þrjú stig, eftir sérhæfingu þjónustunnar og aðgengi að henni. Til fyrsta stigsins telst almenn heilbrigðisþjónusta og almennt mennta- og velferðarkerfi, annað stigið felur í sér sérhæfðari heilbrigðisþjónustu og sérhæfðari mennta- og velferðarþjónustu eftir greiningu á þörfum, þriðja og sérhæfðasta stigið eru GRR og Barna- og unglingageðdeild LSH auk sérhæfðari heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum og öðrum stofnunum. Til að fá þjónustu á þriðja stigi þarf oftast tilvísanir eða frumathuganir sem sýna að þörf sé sérhæfðra athugana og meðferðar á þriðja stigi.

Tilvísunum frá skólum fjölgar

Á undanförum fimm árum hefur GRR þurft að vísa 400 börnum frá. Ástæðan er þröngur fjárhagur, mannekla og fjölgun tilvísana. Tilvísanirnar koma aðallega úr skólakerfinu en sú aukning verður m.a. til vegna eftirspurnar eftir læknisfræðilegum greiningum. Ástæðan er sú að skólayfirvöld gera iðulega kröfu um að læknisfræðileg greining liggi fyrir áður en fé er veitt í sérkennslu eða annan stuðning, segir Evald.

Árið 2007 var biðlistinn á GRR orðinn fjögur ár, þá var farið í sérstakt átaksverkefni til að létta á biðinni og stóð það verkefni í rúm tvö ár. Frá 2007 til 2014 hefur fjöldi tilvísana á Greiningarstöðina verið á bilinu 280 til 384 á ári. Frávísanir hafa verið á bilinu 44 til 94 á ári. Í október síðastliðnum var bið eftir athugun á fagsviði yngri barna á bilinu 4 til 12 mánuðir en 10 til 14 mánuðir á fagsviði eldri barna, en til þess sviðs teljast 6 til 17 ára börn.

Evald segir að 10 til 15% barna í hverjum árgangi séu með einhverskonar vandamál á hverjum tíma sem þarf aðstoðar við. Um 5 til 6% úr hverjum árgangi er vísað á GRR sem er allt of hátt hlutfall að sögn Evalds, þangað eigi aðeins að koma alvarlegasti hlutinn sem afmarkast við 3 til 4% barna úr árgangi.

Þarf að efla 2. þjónustustig

„Þetta endurspeglar það að 2. þjónustustigið þarf að vera öflugra. Það er fyrst og fremst sérfræðiþjónusta á vegum sveitarfélaganna en inni í því er sálfræðiþjónusta í skólum stór partur,“ segir Evald. Eins og kom fram í Morgunblaðinu fyrir skömmu eru nú meira en 500 grunn- og leikskólabörn á biðlista eftir sálfræðigreiningu á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

„Við höfum verið að reyna að tala fyrir því í samstarfi við 2. stig að það sé ekki jafnmörgum vísað yfir á 3. stig en við komumst ekki leiðar okkar vegna þess að umræðan kemst aldrei á það plan innan stjórnkerfisins að tekin sé ákvörðun eða skilgreint hvað á að fara inn á 3. stigið og hverju á að þjóna á 2. stigi,“ segir Evald. „Við erum alltaf að sinna fleirum sem okkur finnst að ættu að fá þjónustu á 2. stigi. Þar er flott fagfólk að vinna en krafan um læknisfræðilega greiningu setur störfum þess ákveðnar takmarkanir. Hluti af vandamálinu er að fólki finnst að það verði að fá þessa formlegu stimpla frá GRR eða frá BUGL til þess að hægt sé með yfirveguðu ráði að krefjast sérstakra úrræða, sérkennslu eða annarrar þjónustu fyrir barnið. Hluti af þörfum barnanna er skólatengdur, en samt skilyrðum við skólatengdar þarfir við læknisfræðilega greiningu. Sú krafa gerir það að verkum að atburðarásin fyrir tiltekið barn verður hægari oft á tíðum og biðin eftir viðeigandi þjónustu of löng.“

Greina mannlegan breytileika

Evald segir að aukið algengi ýmissa taugaþroska- og geðraskana ýki svo vandann. „Það er aukin þekking á þessum frávikum og því eru þau fleiri, en svo erum við líka farin að daðra við að setja greiningar á mannlegan breytileika, sem er vondur staður að vera á.“

Evald upplifir það þannig að ofuráhersla sé á greiningu og að stimpillinn sé aðgangur að þjónustu.

„Það er ekki þar með sagt að greiningin sé óþörf, langt því frá, en stundum liggja það miklar upplýsingar fyrir að það er hægt að hefjast handa miklu fyrr með að veita barninu þjónustu eftir þörfum.“

Evald Sæmundsen.
Evald Sæmundsen. G JOHANNESSON 354-5689220 895920
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert