Voðaverkin ekki á ábyrgð múslima

Yaman Brikhan á og rekur veitingastaðinn Ali Baba í miðbænum. …
Yaman Brikhan á og rekur veitingastaðinn Ali Baba í miðbænum. Hann er frá Sýrlandi en hefur verið búsettur á Íslandi í 15 ár. mbl.is/Rax

Það samræmist ekki boðskap Múhameðs spámanns að myrða fólk fyrir að gera grín, segir Yaman Brikhan, eigandi Ali Baba í Veltusundi. Yaman, sem tilheyrir Menningarsetri múslima á Íslandi, segir ósanngjarnt að herma árásirnar í París upp á íslam og gagnrýnir að í umræðunni sé verið að skapa gjá milli múslima og annarra samfélagsþegna.

„Já, mér finnst eins og þeir séu að segja: „Þú ert múslimi, það er þér að kenna hvað þessir menn hafa gert.“ En það er ekki mér að kenna. Ég þekki þá ekki,“ segir Yaman, spurður að því hvort hann upplifi að ábyrgðinni sé varpað á múslima almennt.

Yaman segist hafa ákveðnar efasemdir um staðreyndir málsins, eins og þær hafa verið settar fram í fjölmiðlum, en hvað sem öðru líður sé ljóst að árásarmennirnir hafi verið vondir menn og þeir endurspegli ekki múslima almennt.

Spyr af hverju fólk velji að gera eitthvað sem það veit að særir aðra

Aðspurður um skopmyndir Charlie Hebdo af Múhameð spámanni segir hann þær afar móðgandi og særandi fyrir múslima.

„Þær eru mjög slæmar. Við tökum þær afar nærri okkur, því það er verið að gera ... Leyfðu mér að gefa þér lítið dæmi: Ef ég veit að eitthvað særir þig og ég er samt alltaf að gera það, af því að ég er frjáls og nýt frelsis í viðkomandi landi, myndir þú bara samþykkja það?“ spyr hann.

Hann segist ekki skilja af hverju menn, ritstjórn Charlie Hebdo í þessu tilfelli, velji að skapa óvild milli fólks.

„Okkur líkar þetta ekki, af hverju skilur fólk það ekki? Af hverju vildu þeir ekki hætta þessu? Þú getur komið hingað [á Ali Baba], það er mér ánægja að bjóða þig velkominn, að bjóða alla velkomna, en hvað ef einhver réðist gegn staðnum mínum með þessum myndum? Ég yrði ekki ánægður,“ segir Yaman.

Ummæli Ásmundar afhjúpi fávisku hans

Yaman segist hvorki borða svínakjöt né neyta áfengis, í samræmi við trú sína, en það hafi engin áhrif á annað fólk. Hann hafi flutt til Íslands og virt allt fólk og allar reglur og segist ekki skilja að fólk vilji kalla hann og aðra múslima hryðjuverkamenn.

Hann segir að verið sé að reka fleyg milli manna og minnist að fyrra bragði á ummæli Ásmundar Friðrikssonar þingmanns, sem hefur m.a. spurt hvort bakgrunnur þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi hafi verið kannaður.

Spurður hvort árásirnar í París og umræðurnar í kjölfarið hafi haft áhrif á viðhorf fólks á Íslandi gagnvart múslimum kemur hann aftur inn á orð þingmannsins.

„Kannski hafa þær áhrif á framtíðina, já. Það byrjaði fyrir tveimur dögum þegar þingmaðurinn sagði að það þyrfti að kanna bakgrunn fólks. Ég hef búið á Íslandi í 15 ár og ef þessi maður er farinn að hugsa svona ... Að sjálfsögðu getur það haft áhrif,“ segir hann.

Yaman segir að fyrir sér hafi ummælin þó fyrst og fremst afhjúpað fávisku þingmannsins.

„Fyrir mér var þetta dálítið fyndið því hann virðist bara vera nýliði eða námsmaður. Eins og hann sitji bara þarna,“ segir Yaman. „Þýðir þetta að hann veit ekkert? Því þegar þú fyllir út pappíra í fyrsta sinn hjá innflytjendayfirvöldum þarftu að skila inn ferilskrá og þeir taka 2-3 mánuði í að fara yfir bakgrunn þinn,“ segir hann. „Þeir láta mig aldrei fá leyfi án þess að athuga hvaðan ég kem, hvar ég bjó og hvort ég á sakaferil að baki.“

„Af hverju aðstoða þeir okkur ekki?“

Yaman er Sýrlendingur að uppruna og foreldrar hans og bræður búa enn í Sýrlandi. Hann segist finna til með þeim sem eiga um sárt að binda vegna átakanna í heimalandinu og að vesturveldin hafi svikið gefin loforð um hjálp til handa sýrlensku þjóðinni.

„Evrópusambandið lofaði að aðstoða okkur en gerði það ekki. Ekki eins og þeir gerðu í Líbíu til dæmis. NATO fór inn í Líbíu og tók út forsetann. En af hverju aðstoða þeir okkur ekki?“ spyr Yaman. Hann segir svarið pólitík og peninga.

Hann segist hafa farið þess á leit við innflytjendayfirvöld á Íslandi að fá föður sinn og bróður tl landsins, en án árangurs. Honum hafi verið bent á að bróðir hans gæti komist hingað á eigin spýtur og sótt um hæli sem flóttamaður.

„Ég þyrfti að borga 10.000 dollara eða evrur til að fá bróður minn fluttan með bát til Þýskalands eða Ítalíu, og hann gæti kannski flogið til Íslands eða fengið stöðu flóttamanns í Þýskalandi. En ég vil ekki vernda hann frá hættu með því að setja hann í frekari hættu,“ segir Yaman.

Víða um heim hafa múslimar mótmælt birtingu skopmynda Charlie Hebdo …
Víða um heim hafa múslimar mótmælt birtingu skopmynda Charlie Hebdo af Múhameð spámanni. EPA
Yaman segir ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vekja áhyggjur.
Yaman segir ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vekja áhyggjur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fleiri en 200.000 hafa fallið síðan átök brutust út í …
Fleiri en 200.000 hafa fallið síðan átök brutust út í Sýrlandi 2011. Enn fleiri hafa flúið heimili sín og eru á vergangi eða hafast við í flóttamannabúðum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert