Hefur gosið í rúma fjóra mánuði

EO-1 mynd frá NASA, unnin á Jarðvísindastofnun og birt á …
EO-1 mynd frá NASA, unnin á Jarðvísindastofnun og birt á Facebooksíðu stofnunarinnar 18. janúar. Myndin er ögn ýkt til að kalla fram virku svæðin í hrauninu. mynd/Jarðvísindastofnun HÍ

Eldgosið í Holuhrauni hefur staðið í rúmlega fjóra mánuði, enn er mikið hraunflæði í Holuhrauni og sighraði öskju Bárðarbungu verulegur. Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Undanfarnar vikur hefur hún þó verið nokkru minni en hún var fyrstu mánuði umbrotanna. 

Flatarmál hraunsins er nú 84,6 ferkílómetrar að stærð.

Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs almannavarna.

Stærsti skjálftinn frá síðasta fundi vísindamannaráðs á föstudag mældist 4,8 að stærð sl.  sunnudag kl. 22:27. Annar skjálfti sem var 4,7 að stærð mældist nú í morgun kl. 10:32.

GPS-mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægan samdrátt í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins.

Í dag berst gasmengunin frá eldgosinu norðvesturs og síðar norðurs í hægum vindi. Á morgun eru horfur á hægum vindi fyrripartinn og útlit fyrir gasmengun kringum eldstöðina og vestur af henni. Seinnipartinn bætir smám saman í vind og mengunin berst til norðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert