Vilja að stofnað verði Landsiðaráð

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG mbl.is/Ómar Óskarsson

Sex þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að forsætisráðherra verði falið að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi „til að undirbúa lagasetningu um hlutverk, skipan og starfssvið siðaráðs á landsvísu, Landsiðaráðs.“ Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til ráðherra í síðasta lagi 1. október á þessu áriog að ráðherra leggi í framhaldinu fram frumvarp til laga í þeim efnum.

„Margt í samfélags- og tækniþróun okkar tíma verður til þess að auka vægi siðferðilegra sjónarmiða við ákvarðanatöku. Hraðfara þróun í líf- og erfðatækni og læknisfræði veldur því að fram koma í sífellu nýjungar sem ögra viðteknum sjónarmiðum og breyta viðmiðunum og viðhorfum til siðrænna málefna með áhrifum sínum á einstaklinga og samfélag. Vegna þessa hafa víða um lönd verið settar á stofn sérstakar siðanefndir í líf- og erfðatækni og læknisfræði til að bregðast við nýmælum á þessum sviðum sem stundum verða siðferðileg deiluefni,“ segir meðal annars í greinargerð.

Bent er ennfremur á að siðanefndum eða siðaráðum, sem séu opinberum aðilum til ráðgjafar auk þess að sinna fræðslu og ráðgjöf gagnvart almenningi, hafi sums staðar verið komið á fót í nágrannalöndum Íslands svo sem í Danmörku og Þýskalandi. Ekkert slíkt ráð starfi hins vegar hér á landi en augljós þörf sé hins vegar fyrir það að mati flutningsmanna. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert