„Hraðnámskeið í pólitískri rétthugsun

Gústaf Adolf Níelsson.
Gústaf Adolf Níelsson. Jim Smart

Líftóran var hrædd úr leiðtogum Framsóknarflokksins og flugvallarvina í borgarstjórn Reykjavíkur og oddviti þeirra hefur verið tekinn í hraðnámskeið í pólitískum rétttrúnaði hjá flokknum, að sögn Gústafs Níelssonar. Flokkurinn dró tilnefningu hans sem varamanns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar til baka í dag.

Skipun Gústafs sem varamanns í ráðið hefur verið umdeild vegna ummæla hans um réttinda samkynhneigðra og múslíma í gegnum tíðina. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, sagði borgarfulltrúa flokksins ekki hafa þekkt afstöðu Gústafs til samkynhneigðra þegar þeir tilnefndu hann. Því hafi tilnefningin nú verið dregin til baka. Ekki kom hins vegar fram hjá henni hvort að ummæli um réttindi múslíma hefðu haft áhrif á þá ákvörðun.

„Það er ekkert við því að segja annað en að líftóran hefur verið hrædd úr þeim, blessuðum. Það er auðvitað erfitt að standast svona áhlaup. Fjölmiðlafárið í kringum það þegar varamaður er skipaður í nefnd eða ráð, að fjölmiðlar landsins skuli fara á límingunum er alveg ótrúlegt. Ég sé það að oddvitinn hefur verið tekinn í hraðnámskeið í pólitískum rétttrúnaði í Framsóknarflokknum. Við því er ekkert að gera,“ segir Gústaf um þessa ákvörðun flokksins.

Gústaf er flokksbundinn sjálfstæðismaður en hann segir að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, hafi leitað til sín um að taka sætið. Hann segir þá beiðni hafa komið sér öðrum þræði á óvart. Hann hafi sagt henni að hann væri ekki í Framsóknaflokknum og hann hefði ekki hug á að ganga í hann en hann væri þó flugvallarvinur.

Spurður að því hverjir það hafi verið sem hafi „hrætt líftóruna“ úr oddvitum Framsóknar og flugvallarvina í borginni segist Gústaf ætla að það hafi verið fjölmiðlar og einhverjir ráðherrar í flokknum, án þess að hann viti það þó.

„Það er alveg augljóst að oddvitanum sem var þó sigurvegari í kosningunum skuli ekki vera treyst betur en þetta í sínum eigin flokki. Svona blasir þetta nú við mér,“ segir Gústaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert