Segir Sigmund og Bjarna skorta þekkingu og getu

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna.
Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, sakaði formenn stjórnarflokkanna um að hafa hvorki þekkingu né getu til að afnema fjármagnshöftin, sem Björn segir að sé „mikilvægasta mál samtímans“.

Þetta sagði Björn Valur í umræðum á Alþingi um störf þingsins. Þar rifjaði hann upp nokkur ummæli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa látið falla í tengslum við afnám hafta. Ummælin kallar Björn „brot af því besta.“

Björn Valur hóf lesturinn á að nefna að þann 23. apríl 2013 hefði Bjarni sagt að það yrði hægt að afnema gjaldeyrishöfin á næstu mánuðum. Tveimur mánuðum síðar hefði Sigmundur tilkynnt að höftin yrðu afnumin samkvæmt áætlun.

Varaþingmaðurinn hélt áfram að vísa í ummæli ráðherranna, m.a. orð Bjarna frá 15. október 2012 að stutt væri í afnám hafta. Björn Valur lauk yfirferð sinni á því að nefna það að Sigmundur Davíð hefði sagt þann 4. janúar sl. að stór skref yrðu stigin í þessum mánuði og að Bjarni hefði í gær sagt að afnám haftanna væru að hefjast. 

Loks sagði Björn Valur að ummælin væru „samhengislaust rugl“. Þetta væri „mikilvægasta mál samtímans sem þeir hafa hvorki þekkingu á né getu til að leysa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert