Fólkið stendur skíthrætt á bremsunni

Starfsfólk Bílaverkstæðis Sigursteins, sem einnig rekur ferðaþjónustufyrirtækið Tinna Adventure, hefur …
Starfsfólk Bílaverkstæðis Sigursteins, sem einnig rekur ferðaþjónustufyrirtækið Tinna Adventure, hefur oft á tíðum þurft að koma ferðamönnum til hjálpar sem hefur fest sig á Breiðdalsheiði. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Tinna Adventure

„Fólk keyrir framhjá skiltum um lokanir, blikkljósum og slá út á veginn en undrar sig samt á því að festast,“ segir Ingólfur Finnsson hjá Bílaverkstæði Sigursteins í Breiðdalsvík, en fyrirtækið hefur séð um að aðstoða ökumenn sem hafa setið fastir á Breiðdalsheiði síðasta árið.

Fyrirtækið hefur farið yfir þrjátíu ferðir til að aðstoða fólk, sem einungis hafa verið ferðamenn. Að sögn Ingólfs hafa verið farnar um tíu ferðir eftir jólin, en hver ferð tekur fyrirtækið um tvær klukkustundir og um áttatíu kílómetra keyrslu. „Ef engin hætta er á ferð eða slasað fólk förum við á svæðið í staðinn fyrir björgunarsveitirnar og rukkum fólk fyrir það,“ segir Ingólfur, en rukkaðar eru 30 þúsund krónur fyrir hvert útkall.

„Þetta er óskaplega skrítið“

Að sögn Ingólfs lendir fjöldi ferðamanna í vandræðum vegna þess að GPS-tæki þeirra segir þeim að keyra leið sem er í raun algjörlega ófær. „Ef GPS-tækið segir þeim að fara þá fara þeir. Þótt það séu engin för og snjóskafl fyrir framan þá, þá er samt reynt. Þetta er óskaplega skrítið,“ segir Ingólfur. „Það stendur á skiltum að það geti haft í för með sér aukakostnað og þetta fólk hefur lesið það en ætlar samt að kíkja aðeins lengra.“

Þá segir hann ekki þörf á því að draga bíla í 70% tilvika, þar sem fólk þurfi í raun aðeins aðstoð við það að snúa bílnum við. „Fólk keyrir til dæmis stundum inn í beygju þar sem er mikill veghalli og þar fer bíllinn að spóla og skrika til og þá þorir það ekki að keyra meira. Það stoppar bara og stendur á bremsunni skíthrætt þangað til við komum,“ segir hann. „Í meirihluta tilfella snúum við bílnum bara við fyrir fólkið og keyrum niður heiðina, og stundum niður í þorp því fólkið er dauðhrætt.

Ferðamennirnir mjög óvanir aðstæðunum 

Að sögn Ingólfs, sem einnig er björgunarsveitarmaður, er það almenna stefnan hjá björgunarsveitunum að vera ekki að draga bíla, heldur einungis hjálpa fólki. „Þegar við drögum bíla erum við ábyrgir fyrir þeim og því hafa ekki margir gefið kost á sér í þessa aðstoð, en við ákváðum að prófa þetta.“

Fyrirtækið, sem einnig rekur ferðaþjónustufyrirtækið Tinna Adventure, á 44 tommu breyttan bíl sem er eins búinn og björgunarsveitarbíll. Þá eru starfsmennirnir vanir björgunarsveitarmenn og hafa því góða kunnáttu í slæmum aðstæðum. 

„Við förum alltaf tvö í svona leiðangra því við drögum aldrei bíl nema vera sjálf undir stýri í þeim bíl. Þetta fólk er svo rosalega óvant og hefur enga kunnáttu til að keyra við þessar aðstæður,“ segir Ingólfur, og bætir við að bílarnir séu oftar en ekki keyrðir niður af Breiðdalsheiðinni fyrir fólk.

Fólkið hrætt um líf sitt

Hann segir ferðafólkið ofboðslega þakklátt fyrir þjónustuna, enda sé það oft á tíðum afar hrætt um líf sitt. „Fólk hefur oft brotnað saman. Það er að keyra í myrkri og snjókomu upp fjallveg og sér ekkert en veit að það er hátt fram af. Það er gríðarlega þakklátt fyrir þjónustuna þegar við keyrum bílinn niður því það hefur verið mjög minnimáttar gagnvart aðstæðum.“

Hann segir starfið gefandi að því leyti, „en samt skilur maður ekki hvers vegna fólk fer gegn skiltunum“.

Fjallajeppar Tinna Adventure á Breiðdalsheiði.
Fjallajeppar Tinna Adventure á Breiðdalsheiði. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Tinna Adventure
Ekki er þörf á því að draga bíla í 70% …
Ekki er þörf á því að draga bíla í 70% tilvika, þar sem fólk þurfi í raun aðeins aðstoð við það að snúa bílnum við. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Tinna Adventure
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert