Ekki áttað sig á sigrinum

Ólöf og Luciana Cristina Leite Galvao voru kampakátar eftir glímuna …
Ólöf og Luciana Cristina Leite Galvao voru kampakátar eftir glímuna en Ólöf bar sigur úr býtum. mbl.is

„Ég er ekki ennþá alveg búin að átta mig á þessu og er í hálfgerðu áfalli. Ég bjóst aldrei við svona góðum árangri,“ segir Ólöf Embla Kristinsdóttir hjá VBC sem varð Evrópumeistari í flokki hvítbeltinga undir 64 kg í brasilísku jiu jitsu (BJJ). Evrópumótið er haldið í Lissabon í Portúgal og stendur til 25. janúar.

Eftir glímuna kom í ljós að andstæðingur hennar í úrslitaglímunni var Luciana Cristina Leite Galvao. Hún er litla systir stórmeistarans Andres Galvaos en hún æfir einnig hjá bróður sínum.

Ólöf hafði ekki hugmynd um hver andstæðingurinn var og segir hlæjandi að hún hefði eflaust verið öðruvísi stemmd fyrir glímuna ef hún hefði vitað hversu sterkur andstæðingur hún væri.

Ólöf, sem er tvítug að aldri, byrjaði að æfa BJJ fyrir einu og hálfu ári. Áður hafði hún æft sund í níu ár. „Það hefur eflaust hjálpað mér því ég var í góðu formi.“ Hún náði að keppa á nokkrum mótum heima áður en hún fór á Evrópumótið. Ólöf hefur mjög gaman af glímunni og segist ætla að halda áfram af krafti enda gaman að eiga við andstæðingana og reyna að hugsa út fyrir boxið. Æfingafélagi Ólafar, Guðrún Björk Jónsdóttir hjá VBC, vann til silfurverðlauna í flokki hvítbeltinga undir 79 kg. „Við erum alveg í skýjunum með árangurinn,“ segir Ólöf sem var að fara að styðja við bakið á félögum sínum á mótinu.

Á Evrópumeistarmótinu eru 22 Íslendingar frá fimm félögum skráðir til leiks. Keppt er eftir fimmbeltaflokkum: hvítu, bláu, fjólubláu, brúnu og svörtu, en auk þess eru keppendur einnig flokkaðir eftir aldri og þyngd. 3.400 keppendur eru skráðir til leiks sem gerir þetta að stærsta BJJ-móti sem haldið hefur verið til þessa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert