Hræddar við Skeljagrandabróður

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/ÞÖK

Forráðamenn þriggja 17 ára stúlkna fóru fram á það við saksóknara í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni að hann yrði ekki viðstaddur í réttarsalnum ef þær ættu að bera vitni gegn honum. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfunni.

Eins og komið hefur fram er Kristján Markús ákærður fyrir fjölmörg brot og eru málin til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness. Meðal annars er honum gefið að sök að hafa laugardaginn 15. mars 2014, inni í strætisvagni í tvígang slegið vagnstjórann hnefahöggi í andlitið, með þeim afleiðingum að ein tönn brotnaði.

Stúlkurnar þrjár urðu vitni að árásinni. Samkvæmt skýrslum lögreglu hafi Kristján Markús verið mjög ógnandi þegar atvik áttu sér stað og vitni að árásinni orðið hrædd. Síðar sáu stúlkurnar í fjölmiðlum fréttir af árásarmanninum og telja þær að sér standi ógn af honum. Treysta þær sér því ekki til þess að bera vitni, enda sé Kristján Markús þekktur af ofbeldisverkum.

Í röksemdum saksóknara fyrir kröfunni um að Kristjáni Markúsi verði gert að víkja segir að yrði vitnunum afar þungbært að þurfa að gefa skýrslu að Kristjáni Markúsi viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð þeirra.

Verjandi Kristjáns Markúsar sagði hins vegar að vitnin hafi enga ástæðu til þess að óttast hann. Hann hafi aldrei ógnað eða hótað þeim, hvorki þegar atburðir áttu sér stað eða síðar. Hræðsla eða ótti vitna verði að byggja á raunverulegum ótta en ekki sögusögnum úr dagblöðum.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Vitnin eru ekki brotaþolar í meintri líkamsárás og ekki hefur verið sýnt fram á nein samskipti þeirra við ákærða á meintum brotavettvangi eða síðar. Ekki verður af gögnum málsins ráðið að nærvera ákærða geti orðið nefndum vitnum sérstaklega til íþyngingar.“

Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til forsendna hans.

Frétt mbl.is: Upp­eld­is­saga bræðranna dap­ur­leg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert