Löng bið með mann í dauðastríði

Örfirisey RE
Örfirisey RE Af vef HB Granda

Vélstjóri og stýrimaður um borð í frystitogaranum Örfirisey björguðu lífi yfirstýrimanns þegar sá síðastnefndi hné niður eftir hjartaáfall. Þriggja klukkustunda bið var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar og tók hún verulega á áhöfnina alla. Yfirstýrimaðurinn þakkar skipsfélögum sínum fumlaus viðbrögð.

Greint er frá björguninni í Þúfu, fréttabréfi HB Granda, og tekið viðtal við þá Björn Braga Sigmundsson, Víði Lárusson og Kristján Víði Kristjánsson en sá síðastnefndi fékk hjartaáfallið að morgni 5. desember sl. þegar togarinn var staddur nokkuð fyrir utan Ísafjarðardjúp. röð tilviljana réði því að vel fór, alls ekki þó að þyrla Gæslunnar hafi verið í verkefni fyrir Almannavarnir við eldstöðvarnar í Holuhrauni. Hefði þyrlan verið stödd í Reykjavík hefði það aðeins tekið klukkustund að koma á staðinn.

Svarblár á örfáum sekúndum

Björn Bragi segir í viðtalinu að hann hafi alls ekki ætlað sér að vera á vaktinni þennan morgun og það hafi verið hrein tilviljun og einskær heppni að hann hafi gengið inn í stakkageymsluna um það leyti sem Kristján kom þangað inn. Hann kom því að Kristjáni á sömu stund og hann hné niður. Bendir Víðir á að ef Kristján hefði verið úti á dekki þá hefði enginn séð hann í langan tíma.

„Fyrstu viðbrögðin voru að ná í hjartastuðtækið en þegar ég kom aftur niður var Kristján farinn að blána. Það fannst enginn púls og á örfáum sekúndum varð hann svarblár,” segir Björn sem einnig kallaði eftir hjálp. Því næst voru fötin skorin utan af Kristjáni, Víðir hóf blástur og hnoð og því næst var hjartastuðtækið notað. Um leið tók Kristján fyrsta andardráttinn. Voru þeir þá tilbúnir með súrefnistæki sem þeir settu á hann og dældu þannig að hann fengi 100% súrefni. Síðan tók við biðin eftir þyrlunni.

Hefði getað fengið annað slag

Þeir segja að þriggja klukkustunda bið hafi verið mjög löng og gríðarlegt óöryggi fylgi því fyrir sjómenn að geta ekki treyst á að þyrla sé til staðar ef eitthvað kemur upp á. Sjálfur segir Kristján að miðað við hversu æðar hans voru stíflaðar hefði hann getað fengið annað slag hvenær sem var þann tíma sem beðið var eftir Gæslunni. Hann hafi því verið í bráðri lífshættu allan þann tíma.

Hann vitnaði til orða eins skipverjans sem sagði: „Þetta er eins og sjúkrabílarnir í Reykjavík væru líka í leigubílaakstri og þyrftu að skutla farþegum heim, áður en þeir gætu sinnt útkalli.“

Frétt mbl.is: Öryggi sjómanna stefnt í tvísýnu

Þúfa, fréttablað HB Granda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert