Símtal Hönnu Birnu var Stefáni erfitt

Stefán Eiríksson og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Stefán Eiríksson og Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Stefáni Eiríkssyni var verulega brugðið við þær athugasemdir Hönnu Birnu Kristjánsdóttir að lekamálið ætti sér pólitískar rætur og vísaði hún í því samhengi til fjölskyldutengsla eins lögrelgumanns sem kom að rannsókninni.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lýsir því að innanríkisráðherra hafi, bæði í símtölum og á tveimur fundum, rætt við hann og sett fram athugasemdir og gagnrýni vegna vinnu lögreglunnar við rannsókn lekamálsins, segir í áliti umboðsmanns Alþingis um samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hefur komið fram hjá lögreglustjóranum að fyrstu spurningar og athugasemdir ráðherra vegna rannsóknarinnar hafi líklega komið fram í símtölum fljótlega eftir að rannsóknaraðgerðir lögreglunnar hófust.

Umboðsmaður segir að það hafi vakið athygli sína þegar Stefán lýsti því að strax í kjölfar þess að hann hafði sent innanríkisráðherra fyrsta bréf sitt, hefði ráðherra hringt og spurt hvort hann hefði haft samband við umboðsmann Alþingis. Lögreglustjórinn tjáði umboðsmanni að ráðherra hefði ekki verð sáttur við að hann hefði greint umboðsmanni frá samskiptum þeirra og spurt hvort hann hefði „virkilega talað við umboðsmann.“ Þegar spurt var hvort ráðherra hefði átt þetta samtal, var svarið: „Ég hef aldrei reynt að hindra [lögreglustjórann] í að gefa embætti yðar þær upplýsingar sem hann kýs og þér óskið eftir.“

Gerði ítrekað athugasemdir

Aðspurður um tímasetningar símtalanna hefur lögreglustjórinn tekið fram að þau hafi iðulega átt sér stað í tengslum við einhverjar rannsóknaraðgerðir lögreglu og þannig hafi t.d. verið gerðar athugasemdir við það þegar lögreglumenn mættu í ráðuneytið án þess að gera boð á undan sér. 

Hinn 9. apríl 2014 haldlagði lögreglan tölvu annars aðstoðarmanns ráðherrans. Þann dag voru einnig teknar skýrslur af innanríkisráðherra og tveimur aðstoðarmönnum ráðherra. Í framhaldi af haldlagningu tölvunnar hringdi ráðherra í lögreglustjórann og setti fram athugasemdir um það atriði. Hæstiréttur birti fyrri dóm sinn vegna lögreglurannsóknarinnar hinn 2. maí. Lögreglustjórinn hefur lýst því að þann dag hafi ráðherra hringt í hann og sett fram margvíslegar athugasemdir vegna rannsóknarinnar. Í kjölfar símtalsins boðaði ráðherra lögreglustjórann til fundarins 3. maí. Hinn 8. sama mánaðar hafði lögreglan boðað annan aðstoðarmann innanríkisráðherra til framhaldsskýrslutöku sem átti að fara fram fjórum dögum síðar. Lögreglustjóri hefur sagt að hann hafi fljótlega fengið símtöl og athugasemdir frá ráðherra um tímasetningu skýrslutökunnar. Henni hafi í framhaldinu verið flýtt.

Rannsaka þyrfti rannsókn lögreglunnar

Meðal þess sem lögreglustjórinn hefur sagt að hafi komið fram hjá ráðherra í einu samtala þeirra er að þegar þessu máli yrði lokið „þá væri alveg ljóst í hennar huga að það þyrfti að rannsaka rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara“. Þessi ummæli ráðherra urðu lögreglustjóranum tilefni til þess að gera ríkissaksóknara grein fyrir þeim. 

Hinn 16. júní birti Hæstiréttur síðari dóm sinn vegna lögreglurannsóknarinnar. Lögreglustjórinn hefur sagt að í kjölfar þess hafi ráðherra hringt til hans og haft uppi gagnrýni á vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins með líkum hætti og áður. 

Hinni formlegu lögreglurannsókn lauk 20. júní þegar lögreglan sendi ríkissaksóknara gögn málsins. Þótt upplýsingar um tímasetningu samskipta innanríkisráðherra og lögreglustjórans liggi aðeins að hluta fyrir er ljóst af framangreindu að þau áttu sér stað af og til á því tímabili sem rannsókn lögreglunnar stóð yfir. 

 Í einu svarbréfi ráðherra við fyrirspurn umboðsmanns kemur fram að ráðherra hafi átt „fjóra almenna fundi með lögreglustjóra á tímabilinu frá því framangreind rannsókn hófst í febrúar sl., en enginn þeirra [hafi verið] boðaður til að ræða rannsóknina sérstaklega. Þá segir í svarinu að á þeim mánuðum sem lögreglurannsóknin stóð yfir hafi ráðherra „jafnframt átt símtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna ýmissa mála.“ Fram kemur að engin skrá hafi verið haldin um samskiptin við lögreglustjórann og því hafi ráðherra ekki verið unnt að leggja fram gögn um þau. Síðar í bréfinu segir: 

„Í þeim tilvikum sem rannsóknina hefur borið á góma í samskiptum mínum við lögreglustjórann hefur það snúið að þeirri viðleitni ráðuneytisins að greiða fyrir rannsókn málsins. Er hér fyrst og fremst um að ræða atriði sem snerta upplýsingaöflun lögreglunnar frá ráðuneytinu til að hægt sé að ljúka rannsókninni eins fljótt og unnt er. Sérstaklega hef ég spurt um öryggi þeirra gagna sem lögreglan hefur fengið aðgang að hér innan ráðuneytisins og varða umrædda rannsókn ekki með nokkrum hætti. Þá hef ég spurt lögreglustjóra hvenær vænta mætti þess að rannsókninni lyki.“

Umboðsmaður spurðist nánar fyrir um ákveðin atriði um hvenær umræddir fjórir fundir hefðu farið fram, hvaða málefni/viðfangsefni hefðu verið til umfjöllunar á þessum fundum og hver hefði boðað lögreglustjóra til fundanna af hálfu ráðuneytisins/ráðherra. 

Í svari ráðherra er upplýst um hvenær umræddir fjórir fundir fóru fram og síðan segir: „Enginn þessara funda var, líkt og fram kemur í fyrra svari, boðaður eða haldinn til að ræða rannsóknina sérstaklega.“

„Stórkostlegt klúður“

Eins og þessi svör bera með sér var það afstaða ráðherra að samskiptin við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar hefðu lotið að tilteknum spurningum um upplýsingaöflun lögreglu, öryggi gagna og hvenær vænta mætti að rannsókninni lyki. Að öðru leyti hefðu samskiptin lotið að því að lögreglustjórinn upplýsti ráðherra „almennt um löggæslu- og öryggismál og stöðu ýmissa verkefna á því sviði“. 

Á fundi ítrekaði lögreglustjórinn að í tilefni af birtingu dómsins frá 2. maí hefði ráðherra gagnrýnt framgöngu lögreglunnar í því máli og tilhögun rannsóknarinnar. Þetta hefðu verið beinar og efnislegar athugasemdir. Það hefði verið „eitt af því sem ráðherrann taldi vera stórkostlegt klúður í þessu máli af [hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu] þegar niðurstaðan [fékkst] í Hæstarétti [...] þegar [embættið tók] ákvörðun um að kæra til Hæstaréttar í stað þess að setja nýja kröfu fyrir héraðsdóm“. Sú ákvörðun lögreglunnar hefði „tafið málið óhóflega“. Þá hefði ráðherra einnig gert athugasemdir við að lögreglan væri að herja á blaðamenn. Af svörum lögreglustjórans verður ráðið að símtal ráðherra hafi verið honum erfitt vegna framgöngu ráðherra í því og vegna þess hafi honum verið óhægt um vik að koma að skýringum eða svörum.

Kannaðist ekki orðrétt við ummæli

Aðspurður um þessi ummæli lögreglustjórans á fundi hjá umboðsmanni 3. desember sl. sagðist ráðherra hafa rætt við hann en kannaðist ekki „orðrétt við þau ummæli“ sem að framan eru rakin. Ráðherra sagðist hins vegar hafa lýst áhyggjum sínum „af því hversu langan tíma rannsóknin [tæki]“. Ráðherra benti á að á þessum tíma hefði rannsóknin staðið yfir í marga mánuði en við upphaf hennar hefðu henni verið veittar upplýsingar um að hún gæti tekið um mánuð.

Á fundi lögreglustjóra og umboðsmann þann 17. nóvember var lögreglustjórinn einnig spurður um samskiptin við ráðherra eftir að Hæstiréttur birti síðari dóminn 16. júní. Hann sagði að í kjölfar þess að síðari dómurinn var birtur hefði ráðherra hringt í hann og gagnrýnt vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins með líkum hætti og áður, „þá er hún bara í rauninni að fara nánast yfir þetta svona lið fyrir lið, allar rannsóknaraðgerðir“. Sérstaklega hafi þó verið fundið að því að „fókusinn væri á aðstoðarmönnum hennar frekar en bara almennt á starfsmönnum ráðuneytisins“ og tilteknum upplýsingum sem fram hefðu komið í úrskurði héraðsdóms sem birtur var með dómi Hæstaréttar. 

Lögreglustjórinn greindi m.a. frá því að ráðherra hefði nefnt „að það væri verið að setja í óeðlilegt ljós samtöl við sem sagt fjölmiðlamenn, þetta væri bara hlutverk og verkefni aðstoðarmanna, að vera í samskiptum við fjölmiðlamenn, að hún vissi nákvæmlega hvað þeim hefði farið þarna á milli í þessum samtölum og eitthvað svoleiðis. Ég held að þetta hafi líka komið fram í einhverri fréttatilkynningu frá ráðuneytinu“. 

Aðspurður um þessi ummæli lögreglustjóra sagði ráðherra á fundinum 3. desember 2014: „[...] í greinargerðinni sem fylgir þessum dómi Hæstaréttar vegna tiltekinna blaðamanna koma fram upplýsingar úr rannsókninni sem settu samtöl í það ljós að þau tengdust málinu. Á þeim tímapunkti var mér algjörlega óljóst, og okkur öllum í ráðuneytinu, og við bjuggum við þær upplýsingar frá mínum fyrrverandi aðstoðarmanni að þessi samtöl hefðu ekkert haft með þetta að gera. Það var sú staða sem við stóðum frammi fyrir.“ 

Áhyggjur af pólitískum rótum málsins

 Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu greindi umboðsmanni frá því 1. desember að í samtölum ráðherra, bæði í síma og á skrifstofu hennar, hefði komið fram að hún „[hefði verið] með á hreinu nöfn nokkurra starfsmanna sem sinntu rannsókn málsins eða komu að því með einhverjum hætti.“ Ráðherra hefði nafngreint þrjá tiltekna starfsmenn í því sambandi og gert „þátt þeirra og ákvarðanir í málinu að umtalsefni“. Þá sagði að í þessu samhengi hafi komið fram „áhyggjur hennar af því að málið ætti sér pólitískar rætur“ og hefði í því samhengi verið vísað til fjölskyldutengsla eins rannsakenda. Aðstoðarlögreglustjórinn í Reykjavík hefur staðfest við umboðsmann að lögreglustjórinn hafi greint honum frá þessu samtali við ráðherra og því sem þar kom fram. Þeim hafi báðum verið verulega brugðið við þetta.

Aðspurður á fundi 3. desember 2014 um þessi ummæli lögreglustjórans kvaðst innanríkisráðherra ekki minnast þess að þetta hefði verið rætt með þessum hætti og um „þessi sérstöku nöfn“ en ráðherra tók fram að sér hefði verið kunnugt um hverjir komu að rannsókninni.

Hanna Birna sendi svo umboðsmanni bréf þann 8. janúar þar sem fram kemur að hún geri ekki athugasemdir við að samskiptunum við lögreglustjórann hafi í megindráttum verið rétt lýst í frásögn lögreglustjórans.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra í nóvember.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra í nóvember. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert