Snúin staða undirmanns og yfirmanns

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Sigríður Andersen vakti máls á því á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem umboðsmaður Alþingis kynnti álit sitt í máli Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar, að umboðsmaður hefði skoðað vanhæfi ráðherra í samskiptum við lögreglustjórann.

Hún benti á að sá sem sætir rannsókn í sakamáli á alltaf rétt á að hafa samskipti við rannsakandann. „Þú bendir á í álitinu hvernig málin horfa við lögreglustjóranum, en einnig út frá stöðu hans sem undirmanns ráðherrans og forstöðumanns stofnunar. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þú hafir velt því fyrir þér hvort lögreglustjóri sjálfur, sem sagði þessi samskipti hafa verið óþægileg einmitt út af þessu, hvort það hefði átt að skipa „ad hoc“ rannsakanda í þessu máli.“

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ítrekaði að rannsókn hans beindist bara að samskiptum ráðherra og lögreglustjóra, en við hana vakna margar spurningar um form og fyrirkomulag þessara mála. „Það er alveg ljóst eins og lögreglustjóri bendir á að staðan sem leiðir af lögunum leiðir til vandræða.“ Hann rifjaði upp lögreglulögin, ákvæði um að lögreglustjóri geti vikið við tilteknar aðstæður, án þess að það valdi vanhæfi undirmanna. En hver sá sem kæmi í staðinn væri skipaður af ráðherra. Sigríður benti á að við slíkar aðstæður gæti „ad hoc“ ráðherra skipað „ad hoc“ lögreglustjóra, þar sem enginn væri þá háður ráðherranum.

Málið rekið í fjölmiðlum?

Karl Garðarsson vakti athygli á því að umboðsmaður hefði birt bréf með samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefáns Eiríkssonar, og spurði hvort slíkt samræmdist góðri stjórnsýslu.

Umboðsmaður benti á að þegar hann tekur mál til rannsóknar, sérstaklega frumkvæðisrannsóknar, þá á ekki að vera nein launung um það. Hann rannsakar stjórnvöld, ekki einstaklinga. Á þessum tímapunkti var mikilvægt að það liggi fyrir á hvaða forsendum það er gert.

Frumkvæðismálin, mál sem umboðsmaður ákveður sjálfur að rannsaka, eru þess eðlis að það þarf að vera ljóst hvers vegna þau eru rannsökuð. Þetta eru, að sögn umboðsmanns, samskipti opinberra aðila.

Karl virtist ekki sammála þessari túlkun Tryggva, heldur segir hann vera að reka málið í fjölmiðlum, og spurði hvort slíkt væri eðlilegt.

Tryggvi bendir á að þegar Umboðsmaður er búinn að senda álit sitt til stjórnvalda, þá geti almenningur sótt sér þær upplýsingar, og því hverjum og einum í lófa lagið að sækja þessar upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen.
Karl Garðarsson
Karl Garðarsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert