Biður Álfheiði afsökunar

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi alþingismaður.
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Rósa Braga

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður hefur beðið Álfheiði Ingadóttur, fyrrverandi alþingismann, afsökunar á því að Borgarskjalasafn skuli hafa haldið því fram að Ingi R. Helgason, faðir Álfheiðar, hafi skrifað njósnaskýrslu um nafngreinda félaga í hreyfingu ungra sósíalista.

Álfheiður skrifaði grein í Fréttablaðið í dag þar sem hún furðar sig á því að safnið skuli halda því fram að faðir hennar hafi „skrifað njósnaskýrslur á næturþeli fyrir Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið og bandaríska sendiráðið." Skýrsluna er að finna í einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, sem varðveitt er á Borgarskjalasafni.

Álfheiður fer í greininni í Fréttablaðinu fram á að Borgarskjalasafn birti opinberlega leiðréttingu á þessum aðdróttunum. Það hefur safnið gert því í morgun birtist á vef safnsins eftirfarandi yfirlýsing:

„Í Fréttablaðinu í dag 24. janúar 2015 birtist grein eftir Álfheiði Ingadóttur um skjal á vef Borgarskjalasafns um safn Bjarna Benediktssonar, þar sem lesa megi að faðir hennar Ingi R. Helgason hrl. sé höfundur dagbókar, e.k. njósnaskýrslu um nafngreinda félaga sína í hreyfingu ungra sósíalista og stúdenta, dagbók sem rataði í einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar fyrrum forsætisráðherra. Álfheiður fer fram á að Borgarskjalasafnið birti opinberlega leiðréttingu á þessum aðdróttunum. Borgarskjalasafn Reykjavíkur viðurkennir hér með að mannleg mistök voru gerð við birtingu á umræddum skjölum. Engin tengsl var að finna milli umræddrar skýrslu og sendibréfs Inga R. Helgason um annað efni, sem lágu saman fyrir mistök. Ekkert bendir til þess að Ingi R. Helgason hafi tengst umræddri skýrslu. Skjalið hefur nú verið tekið úr birtingu á vef safnsins. Fyrir hönd Borgarskjalasafns Reykjavíkur vil ég biðja Álfheiði Ingadóttur og aðra sem málið varðar margfaldlega afsökunar og harma þessi mistök. 

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður“

Grein Álfheiðar birtist í Fréttablaðinu í dag.
Grein Álfheiðar birtist í Fréttablaðinu í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert