Síðasti McDonald's-hamborgari Íslands til sýnis

Aðalheiður segir frönskuskammtinn hafa látið á sjá vegna óprúttinna gesta.
Aðalheiður segir frönskuskammtinn hafa látið á sjá vegna óprúttinna gesta. mbl.is/ Kristinn

Hinn 31. október árið 2009 fór Hjörtur Smárason og keypti síðasta McDonald's-hamborgara Íslands. Eftir að Þjóðminjasafnið hafnaði gripnum lánaði Hjörtur Bus Hostel í Skógarhlíð borgarann þar sem hann er nú til sýnis fyrir gesti og gangandi. 

„Ég var búinn að heyra þessa þjóðsögu um að McDonald's-hamborgarar mygluðu aldrei. Mig langaði hreinlega að athuga hvort þetta væri rétt eða ekki,“ segir Hjörtur.

Hamborgarann setti Hjörtur í poka og upp á hillu inni í bílskúr og gleymdi honum þar í þrjú ár, eða allt fram til ársins 2012 þegar hann var að taka til vegna flutninga til Danmerkur.

„Ég sá að hann hafði ekkert breyst frá því að ég keypti hann. Ég var í stökustu vandræðum með hvað ég ætti að gera við hann. Ég vildi ekki taka hann með mér til Danmerkur, enda fannst mér að síðasti McDonald's-hamborgari Íslands ætti að vera á Íslandi,“ segir Hjörtur.

Af borgaralegri skyldurækni skutlaði hann gerseminni, og frönskunum sem fylgdu, beinustu leið á Þjóðminjasafnið. Hamborgarinn var í þeirra vörslu í u.þ.b. ár.

„Síðan kom til landsins einhver danskur sérfræðingur og hann mat það sem svo að þeir gætu ekki varðveitt eitthvað eins og hamborgara. Ég held að hann hafi alveg rangt fyrir sér því þessi hamborgari varðveitir sig bara sjálfur.“

Gestirnir borða frönskurnar

Starfsfólk Þjóðminjasafnsins spurði Hjört hvort rétt væri að henda honum en það kom eðlilega ekki til greina enda um mikil menningarverðmæti að ræða, hvort sem þau tengjast hámenningu eða lágmenningu, eins og Hjörtur orðar það. Hjörtur leitaði því til vina sinna á Bus Hostel sem tóku safngripinn að sér. 

Hamborgarinn og frönskuskammturinn er nú til sýnis á barborði Bus Hostel og þrátt fyrir að hann sé brátt kominn sex ár fram yfir söludag er hann enn í góðu standi. 

Aðalheiður Ýr Gestsdóttir, rekstrarstjóri Bus Hostel,  segir hamborgarann vekja mikla lukku meðal gesta hostelsins.

„Fólk ætlar yfirleitt ekki að trúa því að hann sé í þetta flottu ástandi, að hann sé þetta gamall. Einhverjir óprúttnir gestir hafa meira að segja stolið sér frönskum, það voru mun fleiri franskar upprunalega,“ segir Aðalheiður og bætir við að sett hafi verið upp eftirlitsmyndavél til að fæla fólk frá því að borða þessar sögulegu gersemar.

Hjörtur segir að þrátt fyrir að frönskurnar líti út eins og nýjar hafi hann ekki lyst á að prófa þær og honum gremst að sjálfsögðu þjóðminjaát gestanna. „Þetta er óbætanlegt tjón McDonald's er náttúrulega ekki til á Íslandi, þú færð ekki annan íslenskan McDonald's-borgara.“

Hjörtur segir Þjóðminjasafninu enn standa til boða að fá borgarann í safnið og telur að hann myndi sóma sér vel umkringdur kumlum og fornum klæðum.

Namm?
Namm? mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert