Skafbylur og lítið skyggni

Frá Hellisheiði. Myndin er úr safni.
Frá Hellisheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Rax

Búast má við skafbyl og litlu skyggni á þjóðveginum yfir Hellisheiði þar til seint í kvöld. Vaxandi SA-átt er og á undan skilum verður hríð og skafrenningur um tíma fyrst suðvestanlands.  Í kvöld er reiknað er með vindhviðum allt að 30-35 m/s á utanverðu Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Víðast hvar hlánar síðar í kvöld og nótt með vatnsveðri upp í 300-400 metra hæð. Vakin er athygli á því að flughált verður þegar leysir og einkum á það við um vegi á vestanverðu landinu.

Hálka og éljagangur er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka, hálkublettir og éljagangur er víða á Reykjanesinu. Hálka eða snjóþekja er á Suðurlandi.

Hálka eða snjóþekja er á Vesturlandi, éljagangur og víða skafrenningur. Ófært er á Fróðárheiði og þungfært er á milli Arnarstapa og Fróðárheiðar. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.

Hálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum. Snjóþekja og éljagangur er á Þröskuldum.

Á Norður- og Austurlandi er hálka eða hálkublettir. Hálka er með Suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert