Vekur athygli á erfiðri stöðu Grímseyjar

Frá Grímsey.
Frá Grímsey. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti einróma ályktun á fundi sínum í gær þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega stöðu Grímseyjar. 

Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur,“ segir þar meðal annars.

Hvetur bæjarstjórnin ennfremur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin sé í frelsi til búsetu.

Ályktunin í heild:

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur.

Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert