Bátur brann í Ólafsvíkurhöfn

Fiskibátur varð eldi að bráð í Ólafsvíkurhöfn í nótt. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en litlu mátti muna að eldurinn bærist í bát sem lá við hlið hans að sögn Svans Tómassonar, slökkviliðsstjóra Snæfellsbæjar. Báturinn, Þrasi SH, var dreginn á land í morgun og er talinn ónýtur.

„Ég held að það sé óhætt að fullyrða það. Þetta var nýlegur bátur. Íbúi uppi í bæ sá eldinn og hringdi á neyðarlínuna og þeir ræstu okkur út. Það munaði voðalega litlu að bálið breiddist út og færi í bátinn við hliðina. Það er eiginlega merkilegt að hann skyldi ekki skemmast,“ segir hann. Málið verður í kjölfarið rannsakað en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað olli brunanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert