Flutningavél lenti í Glasgow í varúðarskyni

Flutningavél Icelandair Cargo. Myndin er úr safni og tengist efni …
Flutningavél Icelandair Cargo. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ákveðið var að lenda farmflutningavél Icelandair Cargo í Glasgow í varúðarskyni eftir að loftþrýstingur um borð lækkaði. Að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins var ekki hætta á ferðum og býst hann við að vélin, sem flytur ferskan fisk, haldi áfram á áfangastað í Belgíu innan skamms. 

Vélin var á leiðinni til Liege í Belgíu frá Íslandi þegar vart varð við lækkun á loftþrýstingi um borð. Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, segir að ákveðið hafi verið að lenda á næsta flugvelli í varúðarskyni en það hafi í þessu tilfelli verið í Glasgow. Ekki sé ljóst hvað hafi valdið þrýstingslækkuninni.

„Menn taka náttúrlega aldrei sénsa með svona. Það var aldrei nein hætta um borð og þetta var ekki nauðlending. Menn gæta náttúrlega alltaf fyllsta öryggis. Í öllum vafaatriðum er frekar farið í varúðarlendingar en að halda áfram í óvissu,“ segir hann.

Ekkert hafi bent til þess að um alvarlega bilun væri að ræða. Gunnar Már á von á að vélin haldi áfram til Belgíu innan skamms þegar búið er að finna út hvað kom upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert