Holtavörðuheiði lokað

Frá Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni.
Frá Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Búið er að loka Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Laxárdalsheiði en þar er mikil hálka og mjög slæmt veður, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Óveður gengur nú yfir landið og hálka, slæmt skyggni og skafrenningur víða. Veðrið á þó að lagast mjög með kvöldinu.

Ekki er gert er ráð fyrir að lægi að gagni og rofi til á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku fyrr en upp úr kl. 19 til 21 í kvöld.  Eins verður hvasst með skafrenningsfjúki um tíma nú undir kvöld á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Á Hellisheiði og Mosfellsheiði mun ganga á með mjög dimmum éljum þar til seint í kvöld eða nótt.

Óveður er á Reykjanesbraut, á Reykjanesjum, á Suðurstrandarvegi og á Kjalarnesi.
Krapasnjór og óveður er á Hellisheiði og Mosfellsheiði en krapasnjór og éljagangur í Þrengslum. Hálkublettir og óveður er á Lyngdalsheiði. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er í uppsveitum á Suðurlandi.

Þungfært og óveður er á Bröttubrekku. Flughálka og óveður er á Laxárdalsheiði. Þæfingsfærð er á Heydal og þungfært í Álftafirði. Hálka og éljagangur er á Fróðárheiði. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er á öðrum leiðum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er flughálka á Raknadalshlíð og í Dýrafirði. Snjóþekja og éljagangur er á Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði. Þæfingsfærð er á Barðaströnd og á Hjallahálsi. Þungfært er frá Skálmarnesi að Klettshálsi og í Bitrufirði. Á Innstrandavegi er flughált út Hrútafjörð í Guðlaugsvík. Hálka og snjóþekja er á öðrum leiðum á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða krapasnjór á flestum leiðum, þó er hálka á Þverárfjalli. Flughálka er á Vatnsskarði. Hálka og óveður er við Stafá á Siglufjarðarvegi.

Flughálka er á Mývatnsöræfum. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og versnandi veður. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er á öðrum leiðum á Norðausturlandi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum, þó er flughálka í Hróarstungu.
Hálka eða hálkublettir er með suðausturströndinni, þó er orðið autt frá Djúpavogi að Höfn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert